Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þingmanni bæði ræðuna og svör við andsvari mínu. Mig langaði líka að draga fram húsnæðismálin og vinnuna við þetta og þá nálgun sem er raunverulega í þessari áætlun, sem ég met að sé kannski styrkurinn að hluta til í þessu. Það er aðgerð 4.A.1. Hún tengist verkefni sem var að frumkvæði Geðhjálpar og í þessum starfshópi, að skoða þróunina og úrræðin, af því að hv. þingmaður kom inn á aðstöðuna á Kleppi og var að skoða á spítalanum. Hér er um að ræða þróunarverkefni um átta sólarhringsrými með notendastýrðu aðgengi eins og þekkist á Norðurlöndunum. Þarna erum við með þetta á ábyrgð Landspítala og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og við þurfum þannig að vinna mjög vel saman að þessum hlutum. Þetta er mjög spennandi verkefni að komast í, hvenær það verður liggur ekki alveg fyrir. Það þarf að fara af stað hópur sem vinnur svona grunnvinnuna, hvar rýmunum verði fyrir komið, hvernig nálgunin er í fjármögnuninni einmitt, hvar hún lendir. Hv. þingmaður getur lesið það af ábyrgðinni hér. Þetta er mjög spennandi verkefni, eitt af þessum fjölbreyttari úrræðum sem við þurfum að fara í þannig að ég vildi vekja athygli á þessu. Þarna er verið að mæta þörf fyrir lágþröskuldaþjónustu þar sem skilgreindur hópur einstaklinga með þekktan geðheilbrigðisvanda getur leitað skjóls og gistingar í gistirýmum í einn til þrjá sólarhringa í einu. Mjög spennandi og sýnir þá hugsun sem einkennir þetta plagg. Ég stend bara fast á þeim fótum að kynna kostnaðarmat og vinna með það áfram inni í velferðarnefnd, Mögulega hefði það mátt fylgja með (Forseti hringir.) en ég mat það þannig að það væri kannski ekki nægilega vel unnið til að fylgja þessu skjali sem við ræðum.