Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið og mér finnst, eins og ég sagði í minni ræðu, mjög mikilvægt að fá ýmiss konar ábendingar hér til þess að nefndin geti velt því upp. Ég treysti mér ekki til að svara því hér og nú hvort það sé æskilegt að það séu settir niður mælikvarðar um þessa tilteknu aðgerð sérstaklega og í hverju þeir ættu að felast. En það er eitthvað sem er sjálfsagt að taka með í vinnunni í nefndinni. Ég vil svo koma aðeins inn á einmitt menntun og mönnun í heilbrigðiskerfinu og í heilbrigðisstéttum, það er viðfangsefni nefndarinnar og við höfum kallað eftir auknum upplýsingum þar um reglulega og upplýsingum um fagráðið, ég man ekki nákvæmlega hvað hópurinn heitir, starfshópurinn sem er að vinna með menntun og mönnun í heilbrigðiskerfinu. Þar veit ég að er ákveðið samráð líka við sérstaklega ráðuneytið sem fer með háskólamál. Auðvitað er mikilvægt að horfa á ýmislegt þar og bara af því að mér gefst tækifæri til þess hérna þá langar mig sérstaklega að nefna þann vanda sem skapast við það að ekki sé hægt að sækja sér starfsréttindi í sálfræði a.m.k. að hluta til í gegnum fjarnám. Það er algjörlega lokað á það og það kemur í veg fyrir að þeir sem hafa sótt sér hugsanlega grunnnám í sálfræði og búa vítt og breitt um landið geti náð sér í klínísku réttindin.