Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni andsvarið. Eins og ég kom inn á líka í ræðunni þá erum við að upplifa tíma þar sem við erum í fyrsta lagi að ganga í gegnum miklar viðhorfsbreytingar varðandi geðheilbrigði en líka mikla breytingu á veitingu þjónustu og uppbyggingu þekkingar og stöðugleika í framboði á þjónustunni. Ég lít á allar aðgerðirnar hérna sem skref í þá átt að skapa meiri stöðugleika í framboði á þjónustunni og skapa starfsumhverfi sem dregur fagfólk að, hvort sem það er til starfa innan heilsugæslunnar, í ungbarnaverndinni, foreldrafræðslunni, innan skólanna og með skólunum eða í framhaldsskólunum eða þá í heilsugæslunni, beinlínis í sálfræðiþjónustunni. Ég lít á alla þessa aðgerðaáætlun sem skref í þá átt að skapa sterkara starfsumhverfi og auðvitað spilar það svo með aðgerðum til að tryggja mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu almennt. Við þurfum að hafa einhverjar áætlanir og markmið um fjölda sem fer inn í mismunandi greinar þar sem við vitum hvað mun vanta af fólki á næstu árum og áratugum.