Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[18:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir prýðisræðu og ég deili mörgu af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Auðvitað held ég að það sé alveg sameiginlegt, ég myndi nú ekki kalla það áhugamál en áhugi okkar á því að gera betur í þessum málaflokki. Eins og hv. þingmaður kom inn á og reyndi að draga fram hefur margt verið vel gert núna á allra síðustu misserum, ég nefni geðheilsuteymin, sálfræðiþjónustu í heilsugæslu, en um leið þá eigum við langt í land með að gera betur í þessum málaflokki. Ég held að við viðurkennum það öll.

Ég vildi bara koma aðeins inn á kostnaðarmatið. Ég er algerlega á þeim vagni að þegar mál koma hér inn — ég tala nú ekki um svona stefnumótandi mál og aðgerðaáætlanir sem fylgja stefnu eins og þetta sem fylgir stefnunni sem við samþykktum hér á Alþingi í júní á síðasta ári — að þau séu þá kostnaðarmetin og ábatagreind. Það er ekki alveg alltaf þannig með þingsályktunartillögur að þær fari í hefðbundið kostnaðarmat og ábatagreiningu en það eru auðvitað til dæmi um það, til að mynda með samgönguáætlun. Ég hafði mikinn hug á því að kostnaðarmeta allar aðgerðir hér. Það eru sex aðgerðir sem eru fjármagnaðar á þessu ári og innan ramma. Svo vil ég benda á að við jukum á milli umræðna í fjárlagaumræðu framlag til heilsugæslu um 2 milljarða þannig að þar kemur inn svigrúm til að bæta við mönnun. Það eru mönnunaraðgerðir í þessu, ég er búinn að láta leggja mat á einstaka liði en þeir eru auðvitað svolítið viðkvæmir í tímasetningu. Ég hef hug á því að kynna þetta mat (Forseti hringir.) fyrir hv. velferðarnefnd þegar velferðarnefnd fær kynningu á málinu.