Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:29]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Framsóknar setti fyrirvara við þetta frumvarp sem hér er lagt fram áður en það var afgreitt úr þingflokknum vegna þeirra áhrifa sem það kann að hafa á hefðbundna jarðvarmavinnslu hér á landi. Við teljum mikilvægt að gerður verði greinarmunur á koldíoxíði sem á uppruna sinn í hringrásarkerfi og niðurdælingu koldíoxíðs frá iðjuverum til geymslu í jarðlögum. Deild innan skrifstofu loftslagsmála ESB telur jarðvarmavirkjanir á Íslandi í vissum tilvikum falla undir gildissvið tilskipunar og að gildissvið tilskipunarinnar sé ekki einungis bundið við koldíoxíð sem eigi uppruna sinn frá starfsemi sem fellur undir ETS-kerfið. Endurnýjuð dæling koldíoxíðs við hefðbundna jarðvarmavinnslu, líkt og fram fer á Íslandi, á sér fáar hliðstæður. Fá lönd í Evrópu stunda hefðbundna jarðvarmavinnslu með sambærilegum hætti og gert er hérlendis og af því leiðir eðlilega að þekking á vinnslutækninni er takmörkuð innan álfunnar og lítt útbreitt. Hér er um að ræða séríslenskar aðstæður sem mikilvægt er að tekið sé tillit til enda geta þær kröfur sem hér eru lagðar á hefðbundna jarðvarmavinnslu á Íslandi dregið úr samkeppnishæfni hennar og margfaldað kostnað við niðurdælingu. Þær leyfisveitingar sem veittar eru á Íslandi fara fram á að jarðhitavatni sem fellur til við jarðvarmanýtinguna sé veitt aftur ofan í jörðina á jarðhitasvæðinu og því er fullkomlega eðlilegt að það sama sé gert við þau jarðhitagös sem falla til, enda hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum og umfangsmiklum tilraunum á Hellisheiði að slíkt sé öruggt og hættulaust. Það er fyrirséð að með því að samþykkja frumvarpið í óbreyttri mynd komi það til með að auka kostnað, seinka leyfisveitingum og hamla árangri landsins í loftslagsmálum, enda kemur það til með að gera út af við Koldísarverkefni Landsvirkjunar sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavinnslu sinni með föngun koldíoxíðs frá Þeistareykjastöð og er verkefnið stór hluti af markmiði Landsvirkjunar um kolefnishlutleysi árið 2025. Ég vil því brýna hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd til þess að standa vörð um þessar séraðstæður sem við búum við hér á landi.