Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:31]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræða um Koldísarverkefnið í sambandi við það frumvarp sem hér um ræðir er til komin vegna umsagna sem Landsvirkjun sendi í samráðsgátt stjórnvalda í tengslum við ferli frumvarpsins, fyrst við áform um lagasetningu og síðar við frumvarpið sjálft. Landsvirkjun heldur því fram að verkefnið Koldís falli ekki undir gildissvið tilskipunarinnar. Á það skal bent að Koldísarverkefnið tengist efni sjálfs frumvarpsins ekki að öðru leyti en því að fjallað er um umsögn Landsvirkjunar í greinargerð frumvarpsins þar sem greint er frá samskiptum við ESA. Staða Koldísarverkefnisins er enn í skoðun innan ráðuneytisins en við eigum fund með Umhverfisstofnun síðar í vikunni til að fara betur yfir málið í heild sinni. Varðandi aðra þætti málsins þá er þetta allt saman gert til að auðvelda okkur verkefnið þegar kemur að loftslagsmálunum. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara vel yfir málið. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt og mikilvægt að gera það. Við fyrstu sýn virðast þær áhyggjur sem hér hafa verið bornar á borð ekki eiga við rök að styðjast. Það er hins vegar alltaf öruggara að fara yfir það og til þess er nefndarstarfið hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að fara yfir nákvæmlega hluti eins og hv. þingmaður vísaði hér til og ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd fullkomlega til að gera það.