Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:35]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður vísaði til í fyrra andsvari sínu þá er hér um að ræða hlut sem er séríslensk þekking en mun örugglega breiðast út og hefur vakið mikla athygli. Eins og ég held að allir heyri sem hafa hlustað á ræðu bæði þess sem hér stendur og ræðu hv. þingmanns þá eru menn farnir í svolítið tæknilega hluti. Það er bara mjög mikilvægt að menn vandi til verka þegar kemur að því. Það er alveg ljóst að markmiðið er að auðvelda okkur verkefnið þegar kemur að baráttunni í loftslagsmálum og nýta það hugvit sem hér er á landi til þess að svo megi verða. Ég bara ítreka það að ég geri engar athugasemdir við það, reyndar tel ég það bara mjög mikilvægt, að hv. þingnefnd fari vel yfir málið þannig að þeim áhyggjum sem uppi eru verði svarað, annaðhvort með breytingum nú eða útskýringum, að þær hafi ekki átt við rök að styðjast.