Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Um þetta mál er sannarlega við hæfi að segja allt er þá þrennt er. Eins og fram kemur í greinargerð eigum við hér í lagasafninu lög nr. 12/2021 og lög nr. 67/2022 sem ætlað var að ná að setja skýrari ramma utan um kolefnisförgun á borð við það sem Carbfix er að gera uppi á Hellisheiði. Við höfum aldrei náð því fullkomlega en núna erum við vonandi að ná utan um tilskipunina sem fjallar um þetta frá Evrópusambandinu. Mig langar samt að spyrja ráðherra varðandi orð sem er rauður þráður í gegnum frumvarpið, gott ef það er ekki í lögunum nú þegar en ég velti fyrir mér hvort við þurfum að skýra í lagatexta, hvort það vanti ekki orðskýringu á koldíoxíðstraumi. Þegar ég var að renna í gegnum frumvarpið sá ég allt í einu fyrir mér vökvann sem dælt er niður en ef ég skil samhengið þá snýst þetta um loftið, sem fangað er frá iðjuverum eða hvað það er, að það sé koldíoxíðstraumurinn sem er síðan blandað við vatn og dælt ofan í jörðina hjá Carbfix. Bara upp á skýrleika held ég að það væri fínt að hafa þetta svart á hvítu í skilgreiningarkafla laganna sem nú þegar skilgreinir ýmislegt sem tengist lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.