Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:18]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í áratugi hefur Alþingi veitt einstaklingum ríkisborgararétt með lögum. Það hefur tíðkast að gera það tvisvar á ári, kallað er eftir gögnum frá Útlendingastofnun sem hafa almennt verið afhent. Það er hins vegar ljóst að það eru ekki öll á eitt sátt um það hvernig fyrirkomulagið við veitingu ríkisborgararéttar skuli vera. Hæstv. ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fór í löngu máli yfir afstöðu Útlendingastofnunar og ráðuneytisins — og ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi tekið undir þær athugasemdir — til fyrirkomulags um veitingu ríkisborgararéttar. Notaði hæstv. ráðherra orðin, með leyfi forseta, „sem ég teldi eðlilegt að endurskoða“ og, með leyfi forseta, „að við ráðum við það verkefni að endurskoða þetta verklag“.

Þá sagði hæstv. ráðherra að gögnin hefðu verið afhent. Það er rangt. Þann 11. október sl. var beiðni samþykkt enn á ný á grundvelli 51. gr. þingskapa þar sem farið var fram á afhendingu þeirra gagna sem Útlendingastofnun ber að afhenda Alþingi vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt. Síðan eru ekki liðnir sjö dagar, eins og lögin kveða á um, ekki 17 og ekki 70. Síðan eru liðnir 170 dagar.

Þessi saga er hér að endurtaka sig þriðja sinni. Sem fyrr segir eru uppi ýmsar hugmyndir um það hvernig fyrirkomulagið um veitingu ríkisborgararéttar skuli vera. Sett var á fót sérstök undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar við upphaf þessa þings til að ræða fyrirkomulagið og hvort ástæða sé til að gera breytingar á því. Það er nefnilega á valdi Alþingis að gera breytingar á fyrirkomulaginu, ekki hæstv. dómsmálaráðherra eða annarra. Nefnd þessi hætti síðan að funda, þar sem ekki náðist samkomulag um það hvert vandamálið væri og því síður um hvernig ætti að leysa það vandamál, sem óljóst er hvert er.

En málið snýst ekki um það. Málið snýst um það að hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, hefur ítrekað lýst því yfir að það hafi verið hans ákvörðun og á hans ábyrgð að koma í veg fyrir afhendingu gagna frá stjórnvaldi þvert á það sem þingskapalög kveða á um, að stjórnvaldi beri að skila gögnum til fastanefnda Alþingis innan gefins tímafrests svo þingið geti sinnt hlutverki sínu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur með þessu brotið gegn þingskapalögum.

Eitt megineinkenni íslenskrar stjórnskipunar er hin svokallaða þrígreining ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins er iðulega rakin til skrifa franska 18. aldar stjórnspekingsins Montesquieu, um leiðir til að tempra ríkisvald í þeim tilgangi að minnka líkur á ofríki og geðþóttastjórnun. Ýmsar útfærslur eru svo til á þessari hugmynd, þar á meðal sú stjórnskipan sem við búum við, sem gjarnan er kölluð þingræði, en það er sú stjórnskipunarregla að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins. Hér er því um sitt hvorn hlutinn að ræða. Ég ætla að minna hv. þingmenn meiri hlutans á það að Alþingi er eitt en ríkisstjórn annað. Það er hlutverk löggjafans að setja lög. Handhafar framkvæmdarvalds sjá um framkvæmdina en vald þeirra er afmarkað af lögum. Þetta er mikilvægt.

Samkvæmt þingræðisreglunni ber forsætisráðherra að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillaga um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Hið sama gildir ef Alþingi samþykkir tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn, en þá er forsætisráðherra skylt að leggja fyrir forseta Íslands tillögu um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki bara viðurkennt opinberlega, heldur beinlínis hreykt sér af því að hafa fyrirskipað Útlendingastofnun að fylgja ekki lögum og meina þinginu þar með um þær upplýsingar sem það þarf til að geta sinnt hlutverki sínu. Þetta gerir hann vegna þess að honum finnst að lögin eigi að vera öðruvísi en þau eru og Alþingi eigi að vinna öðruvísi en það gerir.

En, forseti, ráðherrum ber að fylgja lögum algjörlega burt séð frá skoðunum sínum á þeim. Það að gefa undirstofnun fyrirmæli um að fylgja ekki lögum sem ráðherra fílar ekki er skýrt brot á lögum um ráðherraábyrgð. Aftur, þá er það málinu alfarið óviðkomandi að um ríkisborgararétt sé að ræða. Þetta mál er stærra og mikilvægara en það. Með því að láta brot hæstv. ráðherra óátalið, með því að styðja hann í embætti með atkvæði sínu hér í dag eru þingmenn að setja alvarlegt fordæmi um það hvernig stjórnskipan okkar virkar. Með því eru þingmenn að samþykkja það að ráðherra geti neitað Alþingi um gögn eftir eigin geðþótta vegna sinna skoðana á því hvort, hvenær, hvernig og að hvaða leyti Alþingi eigi rétt á gögnunum. Með því að láta brot ráðherra óátalið eru þingmenn að fallast á þá túlkun ráðherra sjálfs að stjórnvöld geti virt að vettugi beiðni Alþingis um gögn sem því eru nauðsynleg til að sinna löggjafarvinnu sinni, hver svo sem hún er.

Hér hefur margt verið sagt til þess að gera lítið úr þessu máli, en ég held að við áttum okkur öll á því sem er í húfi. Vantrauststillaga þessi er ekki sett fram af neinni léttúð, líkt og hæstv. forsætisráðherra sagði. Hér er það virðing og vald Alþingis sem málið snýst um. Ég bið hv. þingmenn meiri hlutans um að íhuga vandlega atkvæði sitt í dag, fyrir framtíð þingræðisins, fyrir framtíð lýðræðisins og réttarríkisins á Íslandi; fyrir framtíð Íslands.