Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Að mörgu leyti hefur þessi umræða verið ágæt og málefnaleg en ég get auðvitað ekki tekið undir það að hún snúist ekki um lögfræðileg álitamál, því að það hefur hún gert. Ég stend við það sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að út frá þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar og út frá þeim gögnum sem liggja fyrir þá eru dregnar allt of brattar ályktanir, sem leiða mig ekki að því að hægt sé að samþykkja vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra. Ályktanir eru dregnar langt umfram efni þeirra gagna sem liggja fyrir og mjög stór orð látin falla. Eins og ég segi, þó að umræðan hafi að miklu leyti verið málefnaleg þá eru látin falla mjög stór orð sem ég get ekki fallist á og er ekki endilega til þess fallið að leiða fram niðurstöðu um það sem umfjöllunarefnið er í raun og veru, þ.e. hvernig við viljum sjá þessu samspili löggjafar- og framkvæmdarvalds háttað.

Þingmenn Vinstri grænna munu leggjast gegn þessari tillögu. Þar með erum við ekki að smætta það viðfangsefni sem hér er til umræðu, eins og gefið hefur verið til kynna af einhverjum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Við erum einfaldlega að benda á að þessi gögn leiða okkur ekki að þeirri niðurstöðu að vantrauststillaga eigi rétt á sér. Hins vegar hvet ég til þess að fundin verði viðunandi lausn á því máli sem hér hefur verið til umræðu, sem varðar samspil löggjafar- og framkvæmdarvalds, og treysti því að við séum fær um það án þess að halda fram stóryrðum hvert um annað.