Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við skulum einbeita okkur að kjarna málsins. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki bara viðurkennt opinberlega heldur beinlínis hreykt sér af því að hafa fyrirskipað undirstofnun að fylgja ekki lögum, þingskapalögum, og þar með meinað þinginu um þær upplýsingar sem það þarf til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Þetta gerir hann vegna þess að honum finnst að lögin eigi að vera öðruvísi en þau eru, að Alþingi eigi að vinna öðruvísi en það gerir. Með því að láta brot ráðherra óátalin, með því að styðja hann í embætti með atkvæði sínu hér í dag, eru þingmenn að setja alvarlegt fordæmi um það hvernig stjórnskipan okkar virkar. Með því eru þingmenn að samþykkja það að ráðherra geti neitað Alþingi um gögn eftir eigin geðþótta, vegna skoðana sinna á því hvort, hvenær og hvernig og að hvaða leyti Alþingi eigi rétt á gögnunum. Með því að láta brot ráðherra óátalið eru þingmenn að fallast á þá túlkun ráðherra að stjórnvöld geti virt að vettugi beiðni Alþingis um gögn sem því eru nauðsynleg til að sinna löggjafarvinnu sinni.