Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[13:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er skiljanlegt að hv. þingmenn meiri hlutans reyni að mála þetta upp sem pólitískt mál stjórnarandstöðu gegn stjórninni, annars vegar til þess að geta réttlætt sitt atkvæði hér í dag, sem sannarlega er á pólitískum forsendum eins og hefur ítrekað komið fram í ræðum hv. þingmanna meiri hlutans hér í dag, hins vegar af því að þetta eru sannarlega ekki fyrstu afglöp téðs ráðherra en það er hér sem steininn tekur úr. Og þar held ég að við séum bara öll sammála og ættum að vera það.

51. gr. þingskapa er notuð til þess að afla ýmissa gagna við löggjafarvinnu hér á þingi í nefndarstörfum, gagna sem eru til og gagna sem taka það saman, jafnvel minnisblaða sem stjórnvöld þurfa að útbúa sérstaklega fyrir nefndina. Mig langar til þess að biðja hv. þingmenn að stíga aðeins út úr núinu og inn í framtíðina og líta til baka til 30. mars 2023 þegar meiri hluti Alþingis vefengdi með formlegum hætti rétt Alþingis til að afla gagna frá stjórnvöldum til að geta unnið sína löggjafarvinnu. — Ég segi já.