Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðuleg forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka fyrir þann sveigjanleika sem þingið hefur sýnt við framlagningu málsins sem hefur tafist. Samkomulag tókst á endanum um að hefja umræðu um áætlunina í dag sem áður stóð til að kláraðist fyrir þessa helgi. En það leiðir af því að um afar umfangsmikla vinnu er að ræða sem staðið hefur yfir lengi og ég ætla aðeins í upphafi máls míns að velta upp þeirri spurningu í þinginu hvort við ættum mögulega að einfalda þetta verkefni með því að miða frekar við uppfærslur sem væru þá kannski aðeins umfangsminni, uppfærslur hverrar ríkisstjórnar á fjármálaáætlun eins og hún kemur fram fyrst eftir að kosið hefur verið. Eins og við erum að gera þetta í dag þá erum við nánast að vinna heildarskjalið upp frá grunni á hverju ári sem kallar á heilmikla vinnu, bæði í þinginu og í stjórnkerfinu, þannig að sumum er reyndar farið að líða eins og þeir séu í fjárlagagerð allt árið. Þessu vildi ég nú bara varpa fram hér áður en ég hef kynningu á skjalinu sjálfu og varðar atriði sem við höfum nægan tíma til að fjalla um. Ég geri ráð fyrir því að fjárlaganefnd muni hafa einhverja skoðun á þessu atriði og að við finnum góða leið til þess að varða veginn fram á við.

Hér er ég mættur til að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem hefur verið dreift á þskj. 1398 og hún byggir í meginatriðum á gildandi fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026.

Í áætluninni felast skýr markmið: Í fyrsta lagi að styðja við Seðlabankann í því verkefni að tempra verðbólgu. Í öðru lagi að verja árangur síðustu ára við að byggja upp framúrskarandi lífskjör og kaupmátt. Í þriðja lagi að byggja undir áframhaldandi vöxt samfélagsins til framtíðar.

Það má segja að góðu fréttirnar séu þessar: Við höfum náð miklum árangri við að draga úr halla ríkissjóðs. Í árslok 2021 var það markmið sett í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en árið 2026. Nú er útlit fyrir að í lok þessa árs verði markmiðinu þegar náð langt á undan áætlun. Gangi forsendur áætlunarinnar eftir munu skuldirnar í reynd hafa náð hámarki í lok síðasta árs og skuldahlutföllin eru miklu lægri en við áður óttuðumst.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður í ár ólíkt því sem við gengum út frá þegar við samþykktum fjárlög fyrir árið. Það er þá í fyrsta sinn frá árinu 2019 en í því felst, eins og við vitum, að tekjur verða hærri en útgjöld. Þannig næst frumjöfnuður og við erum þá að undanskilja vaxtatekjur og gjöld. Áætlað er að frumjöfnuður verði jákvæður sem nemur um 24 milljörðum á árinu en verði ekki neikvæður um 50 milljarða eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Þetta er síðan stórt skref í átt að því að heildarjöfnuður verði aftur jákvæður undir lok áætlunartímabilsins. Að viðbættum vaxtajöfnuði er gert ráð fyrir halla á heildarafkomu hins opinbera á þessu ári sem nemur 1,7% af vergri landsframleiðslu en að hallinn minnki ár frá ári þannig að heildarafkoman verði orðin jákvæð undir lok tímabilsins. Rekstur hins opinbera er því að batna markvert frá þeim mikla halla sem við sáum árin 2020 og 2021 og rekja mátti til heimsfaraldursins en hallinn þá nam 8–9% af landsframleiðslu hvort árið, sem er mjög mikill halli. Þessi viðsnúningur er á sama tíma sögulega mjög mikill.

Það hefur sýnt sig, svo að ekki verður um villst, að hallann sem við tókum á okkur þessi ár er ekki hægt að afskrifa sem tapað fé því viðspyrnan varð mikil eins og til stóð. Atvinnuleysi er nú með minnsta móti en öflug sókn hefur skilað hátt í 30.000 störfum frá því að þau voru fæst í faraldrinum. Ferðaþjónusta hefur náð fyrri hæðum, rótgrónar atvinnugreinar á borð við sjávarútveg og stóriðju standa sterkt og nýjum greinum vex fiskur um hrygg. Útflutningstekjur í hugverkaiðnaði jukust um 17% að nafnvirði milli áranna 2020 og 2022 og við sjáum fram á að þar séu áfram mjög miklir vaxtamöguleikar. Skattar hafa í sumum tilvikum verið lækkaðir. Á sama tíma hafa laun hækkað töluvert og bætur almannatrygginga hafa tekið breytingum til hækkunar og kaupmáttur ráðstöfunartekna var, af þessum sökum fyrst og fremst, 200 milljörðum meiri árið 2022 en 2019 og hann jókst að jafnaði áfram hjá lægst launuðu stéttunum árið 2022 þrátt fyrir aukna verðbólgu.

Þessi sterka staða er engin tilviljun, hún byggir á traustum grunni. Nú er verkefni okkar að breytast mjög mikið eftir heimsfaraldurinn. Það er ekki lengur þörf á sérstökum aðgerðum til að örva hagkerfið heldur erum við skyndilega komin í þá stöðu að það þarf í reynd að kæla vélarnar.

Innrás Rússa í Úkraínu og hraður vöxtur hagkerfisins eiga ríkan þátt í því að verðbólga hefur risið mikið hér á landi. Þrátt fyrir að vera minni en að meðaltali í Evrópusambandinu á samræmdan mælikvarða er verðbólgan verulegt áhyggjuefni og það er okkar stærsta verkefni nú um stundir að ná henni niður.

Hvert prósentustig sem verðbólga hækkar um í viðbót rýrir kaupmátt heimilanna um 20 milljarða á ári og eru þar ekki meðtalin áhrif af þeirri auknu vaxtabyrði sem slík hækkun myndi líkast til kalla á. Það skiptir af þessum sökum miklu máli að áframhaldandi jákvæð þróun afkomu ríkisins og skuldahlutfalla gangi eftir enda er með því dregið úr verðbólguþrýstingi. Sá hraði bati á frumjöfnuði ríkissjóðs sem áður var lýst og öflugur efnahagsbati hafa leitt til langtum lægri skuldahlutfalla en áður var reiknað með. Í fjármálaáætlun, sem lögð var fram haustið 2021, var gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera yrðu um 55% af landsframleiðslu í árslok 2022 en raunin er hins vegar sú að þessi hlutföll voru um 40% af landsframleiðslu og er það nú þegar orðið nokkuð lágt í alþjóðlegum samanburði.

Virðulegur forseti. Framhald þessarar jákvæðu þróunar verður ekki af sjálfu sér. Þess vegna birtist í þessari áætlun skýr áhersla stjórnvalda á að sýna aðhald, forgangsraða og draga úr þensluhvetjandi aðgerðum. Þróun útgjalda síðastliðin ár ber þess glöggt merki að áherslan í ríkisfjármálum hefur verið á baráttuna við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins. Stefna stjórnvalda hefur verið að vaxa út úr vandanum með því að auka verðmætasköpun í hagkerfinu sem aftur mun skila ríkissjóði meiri tekjum en ella hefði orðið.

Samhliða er gengið út frá þeirri forsendu að halda aftur af útgjaldavexti og afkoma ríkissjóðs batnar þannig ár frá ári. Hægfara raunvöxtur frumgjalda, eins og miðað er við í áætluninni, felur í sér að lítið svigrúm er til nýrra eða aukinna útgjalda á tímabilinu nema með forgangsröðun og bættri nýtingu fjármuna innan gildandi útgjaldaramma. Þetta felur jafnframt í sér meiri áherslu á að bæta opinbera þjónustu með aukinni skilvirkni.

Til að styðja við markmið um hóflegan vöxt útgjalda og draga úr þenslu og verðbólgu er jafnframt gert ráð fyrir að ráðstöfunum verði beitt til að draga úr útgjaldavexti. Almenn aðhaldskrafa er tvöfölduð á árinu 2024 og verður þannig 2% utan þess að hún verður 0,5% á skóla. Þessu til viðbótar verður gerð 1% hagræðingarkrafa til viðbótar á aðalskrifstofu ráðuneyta á árinu 2024, en hins vegar er rétt að geta þess að lögregluembættin eru undanskilin aðhaldskröfu næstu tvö árin og fangelsi, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir, auk almanna- og sjúkratrygginga eru undanskilin aðhaldskröfunni út áætlunartímabilið.

Þessu til viðbótar verður lögð áhersla á að draga úr útgjöldum í rekstri ríkisins með því að nýta tækifæri í stafvæðingu, í innkaupum, sameiningum og húsnæðismálum stofnana. Fækkun fermetra í skrifstofuhúsnæði ríkisins er ætlað að skila sparnaði sem nemur um 2 milljörðum á ári í lok tímabilsins, auk þess að skila faglegum ávinningi. Þá verður gerð sérstök hagræðingarkrafa á samninga ríkisins sem eru eldri en fimm ára með það að markmiði að ríkisaðilar bjóði þá út í samræmi við lög um opinber innkaup. Stefnt er að því að ná þannig sparnaði sem nemur að lágmarki 2% af heildarinnkaupum ríkisins sem myndi svara til 4 milljarða sparnaðar á ári.

Samhliða aukinni stafvæðingu eykst skilvirkni í starfsemi stofnana og þar má ná fram umtalsverðri hagræðingu með því að nýta það svigrúm sem skapast í rekstri við eðlilega starfsmannaveltu og/eða við starfslok vegna aldurs. Í þessu sambandi má nefna tölur sem skipta máli. Við horfum t.d. til þess að á næstu fimm árum muni eitt þúsund ríkisstarfsmenn láta af störfum sökum aldurs. Ef við náum alvöruárangri í því að auka hagræði, taka stafvæðingu betur í gagnið og aðra slíka þætti má hafa uppi vonir um að ekki þurfi að ráða í þau eitt þúsund störf sem losna með þessum hætti. Ef við myndum gefa okkur að ekki þurfi að ráða nema í helming þessara starfa myndi hljótast af því sparnaður upp á 7 milljarða á ári. Ég segi þetta vitandi það að í sumum geirum verður mannaflaþörf áfram vaxandi, eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu þar sem við vitum að mönnunarvandinn er til staðar og þess vegna getum við ekki gert okkur vonir um að engin verði ráðinn í staðinn fyrir þessa þúsund. Ég nefni þessa tölu svona til þess að fá fólk til að hugsa um hversu miklu það skiptir að við séum að huga að mannaflaþörfinni og aukinni skilvirkni vegna þess að háar fjárhæðir eru undir.

Virðulegi forseti. Meðal þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á tekjuhlið ríkissjóðs er lækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% á miðju þessu ári en þannig er slegið á þenslu strax á árinu 2023.

Við horfum einnig til vask-ívilnana á rafbílum sem áætlað er að muni nema 10,2 milljörðum á yfirstandandi ári. Þessi skattastuðningur hefur verið að taka breytingum. Við höfum smám saman verið að draga úr stuðningnum. Ég vísa til þess að við tókum upp lágmarks vörugjald nú um áramótin upp á 5% sem áður var núll. Ég vísa til þess að við hófum að gera breytingar á bifreiðagjöldum vegna rafmagnsbifreiða og hækkuðum þannig bifreiðagjöldin frá og með þessu ári þannig að við höfum aðeins verið að gera breytingar. Við höfum verið að skoða þessar tölur sem við settum á blað. Á sínum tíma ætluðum við að fá 15.000 bíla með ívilnunum. Við hækkuðum það upp í 20.000 og nú er komið að því að við ákveðum hvernig við viljum taka næstu skref en við sjáum fyrir okkur að hægt sé að þrengja ívilnanir sérstaklega fyrir dýrari bílana. Í því sambandi erum við að gera kerfisbreytingu sem er á sömu nótum og sú sem gerð var um áramótin með bílaleigubílana þar sem við tókum stuðninginn úr tekjukerfinu okkar og færðum yfir í sérstakan sjóð hjá umhverfisráðuneytinu sem er þá á útgjaldahliðinni. Það sama erum við að gera núna í þessu samhengi fyrir hin fjölbreyttu orkuskiptaverkefni, það eru 7,5 milljarðar sem fara yfir til umhverfisráðuneytisins og þetta hættir þá að vera á tekjuhlið fjárlaganna. En við gerum betur grein fyrir þessu í skjalinu sjálfu.

Verkefnastofa um samgöngugjöld starfar nú á vegum fjármála- og innviðaráðuneytanna við að móta leiðir til að endurheimta tekjur af ökutækjum og umferð í stærra samhenginu. Það hefur orðið mikil lækkun undanfarin ár samhliða orkuskiptum og sparneytnari bílum. Við höfum hvatt til þess að sparneytnari bílar séu keyptir með gjaldakerfinu okkar. Fólk hefur gert það og það leiðir til þess að við sjáum mun minni tekjur í eldsneytisgjöldum, svo að dæmi sé tekið. Horft er til þess að nýtt kerfi miðast í auknum mæli við notkun og að tekjurnar geti smám saman náð sínu fyrra meðaltali árið 2027, í 1,7% af vergri landsframleiðslu. Það er verulega mikil breyting ef það myndi ganga eftir og ég tel að það þurfi að meta það á hverju ári en hinar undirliggjandi forsendur í þessu skjali eru þær að tekjustofnarnir taki smám saman við sér þannig að þeir verði svipaðir og áður var. En við þurfum að gæta að því að ganga ekki of langt í því að leggja á nýjar álögur og þurfum að fylgjast með þessu og uppfæra áform okkar á hverju ári í mínum huga.

Fyrirhugað er að hækka tekjuskatt lögaðila tímabundið til eins árs úr 20% upp í 21% vegna rekstrarhagnaðar ársins 2024. Við munum auka gjaldtöku í ferðaþjónustu með það að leiðarljósi að breikka skattstofna, tryggja jafnræði aðila á markaði. Þar er ég t.d. að vísa til þess að við munum fara að taka gjöld af skemmtiferðaskipum sem hingað koma. Enn fremur er gert ráð fyrir að auka tekjur af fiskeldi og gert er ráð fyrir að endurskoðun á gjaldakerfi í sjávarútvegi muni skila auknum tekjum í ríkissjóð á áætlunartímabilinu.

Líkt og áður segir er ekki gert ráð fyrir miklum fjölda nýrra útgjaldaákvarðana á tímabilinu. Hins vegar verður áfram forgangsraðað í þágu grunninnviða og einblínt á að verja kjör þeirra sem helst þurfa. Undanfarið hefur þessi áhersla komið skýrt fram, m.a. í mikilli tekjuskattslækkun fyrir tveimur árum, sem helst gagnaðist tekjulágum. Við höfum verið að hækka bætur almannatrygginga og sömuleiðis hækkað húsnæðis- og vaxtabætur, við höfum hækkað skerðingarmörk. Tæplega tvöföldun frítekjumarks örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna er nýlegt dæmi, sérstakur barnabótaauki sömuleiðis og við einfölduðum og efldum barnabótakerfið frá og með síðustu áramótum. Þetta skiptir allt máli í ljósi aðstæðna eins og þær hafa þróast.

Þessar áherslur endurspeglast í því að útgjöld til velferðarmála eru sem fyrr umfangsmest á tímabili áætlunarinnar en alls renna hátt í 60% útgjalda á tímabilinu til heilbrigðismála auk félags-, húsnæðis- og tryggingamála.

Af einstökum breytingum vegur þyngst áframhaldandi hækkun fjárheimilda til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga vegna fjölgunar og öldrunar. Þá verða framlög til byggingar nýs Landspítala aukin en það er stærsta einstaka fjárfesting sem ríkissjóður hefur ráðist í og er verkefnið fullfjármagnað á tíma þessarar áætlunar. Heildarframlög til framkvæmdarinnar á tímabilinu nema þannig yfir 126 milljörðum kr.

Á tímabili áætlunarinnar verður unnið að heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og er það meiri háttar kerfisbreyting. Samhliða því er gert ráð fyrir að fyrirkomulag jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða verði endurskoðað og það kallar á samtal en við teljum að þessir tveir hlutir kallist á og það sé ákveðið samhengi í því að það yrði dregið úr sérstöku jöfnunarframlagi til lífeyrissjóða á sama tíma og örorkubótakerfið er stóreflt. Árlegur varanlegur kostnaður við nýtt kerfi væri þannig áætlaður um 16,5 milljarðar frá og með árinu 2028 þegar áhrifin af kerfisbreytingunni verða að fullu komin fram.

Þessu til viðbótar hækka framlög vegna áætlaðrar fjölgunar örorku- og ellilífeyrisþega á tímabilinu alls um 24,7 milljarða. Það verður að nefna hér að það hefur verið mjög ánægjuleg þróun í því að dregið hefur úr fjölgun nýliðunar á örorku, t.d. með aukinni áherslu á endurhæfingu og virkniúrræði. Þar munar verulegum fjárhæðum, að ekki sé talað um lífsgæðin sem við náum fram með þessu fyrir þá sem eiga undir.

Fjárveitingar vegna stofnframlaga eru auknar um 2 milljarða frá og með árinu 2024. Ég tel að þarna muni sömuleiðis þurfa að fylgjast mjög vel með frá einu ári til þess næsta hvernig húsnæðismarkaðurinn þróast og hvernig eftirspurn eftir stofnframlögum verður. En með þessari hækkun verða árleg framlög rúmlega 3,7 milljarðar eða 18,7 milljarðar í heild á tíma fjármálaáætlunar og er þá ekki tekið tillit til þeirra heimilda sem þegar eru til staðar og hafa ekki verið nýttar.

Að auki verður áfram fjárfest í vaxtartækifærum framtíðar. Þar ber helst að nefna milljarðsstyrkingu í háskólastigið sem fer stigvaxandi í 2 milljarða á tímabilinu. Það gefur tækifæri til breytinga og nýrra áherslna á háskólastigi. Þá verða framlög vegna aukinnar áherslu á verknám sömuleiðis aukin og kominn tími til að við gerum verknámi á Íslandi hærra undir höfði. Til þess þarf fjárveitingar og við sjáum fram á töluverðar breytingar á tíma fjármálaáætlunarinnar hvað varðar þessi hlutföll milli bóknáms og verknáms á framhaldsskólastiginu.

Þá verður áfram stutt við rannsóknir og þróun. Framlag til nýsköpunarfyrirtækja hækkar um 1,9 milljarða á næsta ári en við sjáum sömuleiðis fyrir okkur að geta stillt þær helstu breytur sem þar reynir á eitthvað betur til að ná enn betur markmiðum okkar. Það gæti leitt til þess að hámark greiðslnanna verði temprað en stýring fjármunanna verði markvissari. 3 milljarðar verða veittir í auknar hafrannsóknir. Ég held að það sé mjög tímabær breyting, gríðarlega mikilvæg starfsemi sem Hafrannsóknastofnun heldur utan um. 2,2 milljarðar fara í öflugra eftirlit með fiskeldi. Ég held að við séum öll sammála um að þar þurfi að gera betur, m.a. í ljósi nýlegrar úttektar. Það má sömuleiðis nefna að Ísland mun áfram styðja við Úkraínu af krafti en 750 millj. kr. framlagi verður sérstaklega varið í varnartengd verkefni fyrir Úkraínu á næsta ári líkt og á yfirstandandi ári.

Virðulegi forseti. Hagkerfið okkar stendur styrkum fótum. Það gerir okkur betur kleift en reyndin er víða annars staðar að hægja á ferðinni án þess að verulegur skaði hljótist af. Í öðrum löndum er verið að reyna að verja kaupmáttinn en það gengur illa. Víðast er hann að lækka. Í okkar tilviki getum við gengið út frá því að þennan sterka kaupmátt sé hægt að verja. Ríkisfjármálin eru í örum viðsnúningi og við erum að sigla hratt og örugglega í átt að heildarjöfnuði í ríkisfjármálunum.

Ég verð að láta máli mínu lokið hér. Það er margt fleira sem er eftirsóknarvert að halda áfram að tala um en ég vil leggja áherslu á það að í öllu (Forseti hringir.) stóra samhenginu, þrátt fyrir að við glímum tímabundið við verðbólgu, er framtíðin gríðarlega björt í okkar hagkerfi.