Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er ráðherra hagstjórnar hér í landinu og auðvitað reynum við í stjórnarandstöðu að leiðbeina honum eftir bestu getu og leggja til lausnir. En hann verður samt líka að bera ábyrgð á því sjálfur hvernig gengur og hvernig fer. Hér er áfram talað um húsnæðismálin í þátíð. Það eru engar lausnir og ekkert fyrir fólkið sem finnur leiguverðið og vextina hækka núna, þetta er allt í þátíð því að ríkisstjórnin er búin að gera svo vel. Kaupmáttur hefur aukist en fer rýrnandi þessa dagana. Það er bara staðreynd. Því finnst mér dálítill uppgjafartónn í hæstv. ráðherra, verð ég að viðurkenna, og ég var að vonast eftir bitastæðara svari í andsvörum frá ráðherra við þeirri gagnrýni sem ég setti fram í ræðunni minni. En hann verður bara að eiga það við sig hvernig hann talar um þessi mál.