Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:53]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stofnkostnaður íbúðarhúsnæðis sem hefur mestu áhrifin og hefur því miður verið það sem hefur hingað til, er ekki að gera núna en hefur gert það undanfarin ár, verið að draga verðbólguna upp. Það er hár húsnæðiskostnaður. Hár húsnæðiskostnaður hér á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt þróunina. Það er mikilvægast, til að lækka fjármagnskostnað og auðvelda þröskuldinn inn á markaðinn, að fjölga íbúðum. Jafnaðarmenn hafa verið duglegir undanfarin ár að kynna hér með PowerPoint-sýningum fjölda lóða og uppbyggingu en það hefur því miður ekki skilað sér enn. Og því spyr ég: Hvernig ætla jafnaðarmenn að ná þessum fjármagnskostnaði niður og þröskuldinum? Hvernig ætla ríki og sveitarfélög að hjálpast að við það? Af því að þetta er samspil. Ég legg það til miklu frekar því ef það gengur eftir þá þurfum við ekki að vera að dæla peningum úr ríkissjóði til þess að koma fólki inn á íbúðamarkaðinn heldur er orðið raunhæfara að það gerist á náttúrulegan hátt án þess að vera að styrkja alla inn. Þá getur fólk gert það á eigin forsendum, í gegnum sparnað sem við leggjum miklu frekar til heldur en vaxtabætur. Það er séreignarsparnaðurinn og sérstaka séreignin sem er miklu eðlilegri leið til þess að koma fólki inn á húsnæðismarkaðinn.