Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:57]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri einmitt ágætisráð að við færum saman yfir þetta í fjárlaganefnd og skoðuðum þessa útgjaldaramma í heilbrigðismálum. Að við veltum því svolítið fyrir okkur hvort sú aukning sem þar er boðuð hrökkvi í alvörunni fyrir mörgu öðru en auknum launakostnaði þeirra sem nú þegar starfa í heilbrigðiskerfinu. Og skoðum þá ekki bara fjárfestingarnar og upphæðirnar í heild sinni heldur reksturinn hjá hverri einustu heilbrigðisstofnun í landinu, hjá spítölunum tveimur. Ég held að ég geti alveg staðið við hvert einasta orð sem ég sagði hér áðan. Höfum það líka í huga varðandi raunframlög til sjúkrahúsþjónustu á Íslandi að ef við leiðréttum það fyrir launakostnaði þá kemur í ljós að þau hafa ekki hreyfst mikið á undanförnum árum, bara ósköp lítið. Og rúmanýting á Landspítalanum hefur verið langt umfram það sem talið er ásættanlegt á bráðasjúkrahúsum í löndum sem við berum okkur saman við. Ég held því að við þurfum í þessari vinnu líka að tala við fólkið á gólfinu, skoða hvernig því líst á þetta og kannski rifja það upp líka, af því að hér er talað um gögn og um að lesa hvað stendur í áætluninni, að hvergi á Norðurlöndunum er jafn lágu hlutfalli vergrar landsframleiðslu varið til heilbrigðismála á Íslandi. Það er staðreynd.