Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir andsvarið. Er fjárskortur eina ástæðan fyrir ástandinu í heilbrigðiskerfinu og þeim áskorunum og þeim vandamálum sem eru fyrirliggjandi í heilbrigðiskerfinu? Nei, ég tel að það sé ekki eina ástæðan en ég tel að það sé grundvallarástæðan fyrir ástandinu í heilbrigðiskerfinu. Ég minni á að fyrir nokkrum árum var Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar eða deCODE, með undirskriftasöfnun um að við myndum auka framlag til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er mun lægra hér en á Norðurlöndunum. Þetta var árin 2016 og 2018. Ég tel að þetta sé eitt stærsta vandamálið, undirfjármögnunin. Hún leiðir síðan af sér önnur vandamál. Vissulega þarf að skipuleggja sig betur, skipuleggja Landspítalann betur og það getur vel verið að það sé ástand sem við höfum ekki náð tökum á, ekki náð að skipuleggja spítalann betur, af því að að við erum alltaf á horriminni þar. Það leiðir til þessara skipulagsvandamála. Ég tel að grunnástæðan sé að við erum ekki að setja nægilega mikinn pening af landsframleiðslu í heilbrigðismálin.

Við þurfum líka að geta haldið í gott starfsfólk. Það er samkeppni um hjúkrunarfræðinga í öðrum ríkjum. Ég get tekið dæmi, það er skortur á hjúkrunarfræðingum í Noregi upp á 4.000–5.000 hjúkrunarfræðinga. Ég tel að skipulagsvandinn sé m.a. vegna fjárskorts en það er eitt í þessu: Við erum eitt ríkasta samfélag heims og við erum í baksi við að reka þjóðarsjúkrahús, eitt lítið hátæknisjúkrahús. Landspítali Íslands er ekki stór stofnun í samhengi við Evrópu eða hinn vestræna heim. Við virðumst ekki ráða við að reka þennan spítala og það er umhugsunarefni fyrir okkur hér í þingsalnum, hér á Alþingi Íslendinga. Það er stóra vandamálið. Ég er orðinn þreyttur á því að heyra viku eftir viku, í hverjum mánuði, fréttir af ástandinu á bráðamóttökunni.