Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég held að það sé alveg ljóst að við erum sammála um þær áskoranir, eða við skulum segja um birtingarmynd þessara áskorana og það hljótum við öll að vera. En áfram erum við svolítið að velta þessu fyrir okkur og mér finnst það áhugavert sem hv. þingmaður segir að fjárskorturinn sem er undirliggjandi leiði af sér þessi skipulagsvandamál eða önnur vandamál sem koma upp. Við þekkjum það öll að fólk sem ver stórum hluta krafta sinna í reksturinn sjálfan eða í að ná í fjármuni hefur lítið afgangs til að huga að öðrum málum. Mig langar svolítið að velta því upp, af því að ég er að reyna að skilja og átta mig á því hvernig við, að mati hv. þingmanns, lögum þetta: Ef það kæmi hér inn í þessa fjármálaáætlun eða næstu fjárlögum eða hvenær sem það gerðist gríðarleg innspýting af peningum í heilbrigðiskerfið, hvert væri best að beina þeim peningum til þess að laga bráðavandann?

Og af því að hv. þingmaður nefnir áskorun Kára Stefánssonar, um 15% af landsframleiðslunni, ég var reyndar aldrei alveg með það á hreinu af hverju það væru 15% en ekki eitthvað annað, en það hlýtur að vera vel út reiknað, hvar endar það þá? Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Það er alveg ljóst að ár frá ári hefur þörfin fyrir fjármagn aukist, heilbrigðiskerfið er líklegast eina greinin þar sem tækninýjungar hafa hækkað kostnað, ekki sparað kostnað. Þær bæta heilsu en ekki kostnað, þetta er gríðarlega dýrt, bestu lyfin eru gríðarlega dýr þannig að kostnaðurinn vex alltaf áfram. Hvernig stöndum við við markmið okkar um að hér sé eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi? Ef það eru bara fyrst og fremst peningarnir, getum við þetta yfir höfuð að mati þingmanns? Hverjar eru leiðirnar? Þetta er stór spurning fyrir tvær mínútur, ég átta mig á því. En þetta er samt svolítið undirliggjandi: Hvert erum við að fara með fjármögnun heilbrigðiskerfisins okkar?