Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get alveg tekið undir orð hans, það er óvarlegt að tala um rekstur á fyrirtæki í þessu sambandi, ég tek það til mín. Það er vissulega mikil einföldun hjá mér að orða þetta svona. Þegar við erum að tala um aðhald — það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að það eru stóru útgjaldasviðin þar sem ekki er farið í niðurskurð. En vissulega er aðhald á öðrum málefnasviðum. Það er aðhald á málefnasviðum eins og t.d. innan samgöngukerfisins. Þar er aðhald. Það er ekki verið blása til sóknar á því sviði, það er verið að halda sér innan marka, innan þeirrar áætlunar sem byggt er á. Þar er ekki verið að bæta við, eins og flest okkar hefðum viljað. Það er því aðhald í þessari fjármálaáætlun. Af því að hv. þingmaður kom inn á að hann sæi ekki hvernig þessi áætlun ætti að geta unnið með í því að taka á verðbólgunni þá er ég, virðulegur forseti, hv. þingmanni bara ósammála hvað það varðar. Seðlabankastjóri hafði t.d. orð á því í gær að hann tæki undir það að þessi fjármálaáætlun væri gott verkfæri í baráttunni við verðbólguna eins og hún er núna. Það er líka gott að ríkið sýni fordæmi í því að reyna að gæta aðhalds í rekstri sínum og útgjöldum.