Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir æðislega skemmtilegar spurningar, eins og alltaf. Þetta eru góðar spurningar sem hv. þingmaður er með. Þetta er kjarni málsins þegar allt kemur til alls, stóra vandamálið sem við erum að glíma við akkúrat eins og er og í raun ástæður þess. Við rekjum ástæður verðbólgu hér á Íslandi að mestu leyti til húsnæðismála og að einhverju leyti núna til innfluttrar verðbólgu.

Ég held að stjórnvöld hér séu bara einfaldlega ekki nógu kröfuhörð af því að þau vinna einhvern veginn ekki á þeim forsendum að þau séu að útskýra í smáatriðum og ítarlega af hverju þessar hækkanir eru að verða. Af hverju er byggingarkostnaður svona hár miðað við innflutning eða annað þess háttar? Við eigum að halda utan um byggingarvísitölu en einhverjar vísbendingar eru um að það sé bara rosalega ónákvæmt. Við sjáum gríðarlega mikinn mun á söluandvirði og byggingarkostnaði þessa dagana miðað við þann orðróm. En aftur: Þetta er ekki nægilega nákvæmt. Við fáum stjórnvöld ekki til að ganga á þessa aðila, eins og hv. þingmaður lýsti; að það væri bara gengið á verslunarkeðjurnar í Svíþjóð og spurt: Af hverju eruð þið að þessu? Það er hægt að útskýra hækkanirnar með þessum þáttum innan verðbólgunnar, þ.e. vegna olíukostnaðar o.s.frv., en þið eruð hækka verðið svo mikið. Hvernig stendur á því? Slíkar útskýringar fáum við ekki. Stjórnvöld gera ekki svona kröfur um aðhald gagnvart atvinnulífinu, að (Forseti hringir.) hlutirnir séu gerðir á útskýranlegan hátt. Í stað þess er brugðist við með því að segja: Ó, það er svo mikil verðbólguhræðsla eða eitthvað svoleiðis; við búumst við því að þetta sé að fara að hækka svo rosalega mikið og við erum svo hrædd um hitt og þetta. — Bara: Nei, ég vil fá gögnin, takk.