Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að fara aðeins út í tiltekin atriði í áætluninni. Það kemur t.d. fram á bls. 39, varðandi móttöku flóttafólks, að sannarlega setur það ákveðinn þrýsting, t.d. á húsnæðismarkað, þegar fólki fjölgar mikið á skömmum tíma. Hins vegar segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Á móti vegur að við núverandi aðstæður mikillar spurnar eftir starfsfólki vinnur aðflutningur flóttafólks á móti þenslu á vinnumarkaði. Að því marki sem flóttafólk leitar á vinnumarkað og fyllir störf eykst framleiðslugeta hagkerfisins og þar með verðmætasköpun sem skilar hinu opinbera auknum skatttekjum.“

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í varðar þá staðreynd sem mér sýnist af þessari áætlun, að heilir 5,6 milljarðar séu núna tímabundið settir í stjórnsýsluþáttinn og þjónustu við umsækjendur. Það virðist gert ráð fyrir að það falli niður árið 2026. Ég velti fyrir mér hvers vegna gert er ráð fyrir því og langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé vegna þess að ríkisstjórnin geri ráð fyrir því að koma flóttamanna muni minnka eftir næsta ár, þar sem í sjálfu sér bendir ekkert til þess að fólksflutningar og ekki síst þvingaðir fólksflutningar um heiminn muni minnka á næstunni. Það er kannski allt sem bendir til þess að þeir muni aukast. Er það ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin heldur að þetta sé einhver tímabundin áskorun, eða er ríkisstjórnin að taka ábendingum þeirrar er hér stendur og annarra um að hætta hreinlega að eyða svona miklum peningum í kerfi sem gengur út á það að halda fólki í burtu héðan?