Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú kannski bara segja að þetta kerfi sem við höfum byggt upp og þessi stofnun sem er þarna að sinna því hlutverki sem henni ber að gera, lögin eru jú þannig — ég held að við séum mörg frekar ósátt við það hversu hægt ferlið gengur fyrir sig þrátt fyrir að hafa sett aukna fjármuni í stjórnsýsluna. Um það held ég að við getum verið sammála. Ég er ekki viss um hvort það eigi að minnka það akkúrat núna á þessum tímapunkti. Hins vegar held ég, og hef sagt það, að við þurfum að fara yfir það verklag sem er í gangi. Ég held að það sé ekki eins gott og það getur verið innan þeirrar stofnunar og er ófeimin við að segja það. Ég held að við þekkjum of mörg dæmi um slíkt. Ég tel því ekki endilega ástæðu fyrir því núna en vonandi, eins og ég sagði áðan, verður staðan með öðrum hætti eftir þennan tíma. Þá getum við skoðað málið betur og við gerum það að sjálfsögðu líka strax á næsta ári, hvort þarna sé of mikið, hvort svo sé ekki eða hvort ástandið er svipað. Ég tek því ekki undir þetta með hv. þingmanni, því að ég myndi bara hafa áhyggjur af því hvernig það myndi allt saman verkast. Ferlarnir eru þessir akkúrat núna og við þá verðum við að búa. Þeir kosta sitt og ég er svo sem alveg til í að leggja fjármuni í þetta kerfi ef það verður til þess að hraða málum og fleiri komist hér inn. En ég er líka alveg sammála hv. þingmanni í því að þetta þurfi að gerast hraðar. Ég er ekki endilega sammála því að þetta séu peningar til að segja nei, ég vil ekki túlka það með þeim hætti. Ég held ég hafi náð utan um að svara þessu, hv. þingmaður.