Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er þetta með tímann okkar. Ég var núna að rúlla í höfðinu yfir dagatalið, hvernig það lítur út, af því að við erum nú búin að fá drög að áætlun um það hvernig þetta getur litið út hjá okkur fram til vorsins. Ég er þó sammála hv. þingmanni í því, og við höfum auðvitað rætt þetta talsvert oft, að það er mikilvægt að þetta sé einfaldara og skýrara. Það er eiginlega óþolandi þegar þetta er ekki sambærilegt á milli ára þannig að við getum ekki borið saman hlutina. Það er ekki góður bragur á því. Ég er líka sammála honum í því að þingið þarf að koma að því og við þurfum að segja hvernig við viljum fá gögnin til okkar. Hvort framkvæmdarvaldið verður við því að öllu leyti skal ósagt látið, en alla vega er það þannig að við eigum að hafa skoðanir á því. Það erum við sem erum að vinna með gögnin í framhaldinu og þurfum að puðast í gegnum þau.

Ég er svo sem sammála því sem fjármálaráðherra nefndi hér varðandi þetta með að við þurfum að minnka umfangið. Að hugsanlega verði bara þær breytingar sem gerðar eru á milli ára sem verði prentaðar þannig að við getum þá borið þær saman bara á milli ára. En þá þurfa líka að vera mælikvarðar og þeir þurfa að vera eins í því sem verið er að breyta. Það er alla vega eitt af því sem við höfum verið að ræða. En við þurfum að finna okkur tíma og ég reyni að setja þær hugmyndir niður með hv. þingmanni, ekki síst áður en sá þriðji hverfur á braut — að við finnum okkur tíma til að setjast yfir þetta bara núna fljótlega eftir páskahlé þannig að við getum haldið áfram svo að við sjáum kannski líka einhvern árangur í haust þegar fjárlögin koma fram og hvernig við viljum sjá þau því að þar er líka talsvert sem við höfum haft miklar skoðanir á og viljum breyta. Og ég hef trú á því að fjármálaráðuneytið sé líka þannig þenkjandi að það vilji breyta.