Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fáir hafa fangað kjarna vandans í dag betur en hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Vandi okkar er sá að við höfum dálítið tapað trú fólks á að við náum verðbólgunni niður. Það verður að breytast.“

Báðar fullyrðingar fjármálaráðherra eru réttar. Fólk hefur tapað trú á að fjármálaráðherra nái verðbólgunni niður og það verður að breytast. En því miður er ólíklegt að þetta breytist núna þegar fjármálaáætlun hefur verið kynnt. Fyrir utan hækkun á tekjuskatti fyrirtækja á næsta ári þá lýsti fjármálaráðherra algerlega óbreyttu ástandi og óbreyttri stefnu þegar hann kynnti þessa áætlun. Í mjög löngu máli, sagði fjármálaráðherra þetta fyrr í dag: Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn verðbólgu eru nákvæmlega engar. Það er ekkert á bak við stór orð um að ríkissjóður muni loksins taka þátt í baráttunni við verðbólgu og fyrir þetta aðgerðaleysi munu heimili landsins og fyrirtæki borga; ungt fólk á húsnæðismarkaði, barnafjölskyldur og leigjendur. Myndin er í sjálfu sér ekki flóknari en þetta, því miður.

Ríkisstjórnin talar um að hún sé að senda skýr skilaboð og að markmiðin séu að ná niður verðbólgu. Þrátt fyrir að skilgreina verðbólgu sem versta óvininn er planið að hefja baráttuna gegn verðbólgunni einhvern tíma seinna. Baráttan við höfuðóvininn er ekki fyrsta verkefni á dagskrá heldur á að eiga sér stað einhvern tíma seinna. Ríkisstjórnin ætlar t.d. seinna að skoða breytingar sem myndu kannski skila hærri veiðileyfagjöldum 2025. Þessar pælingar gera auðvitað ekkert til að ná niður verðbólgu í dag, hjálpa ekki ungu fólki á húsnæðismarkaði með háa vexti á lánunum sínum nú. Þarna eru örfáar tímasettar skattaaðgerðir, önnur um endurgreiðslur á virðisauka fyrir framkvæmdir á heimilum og hin er hærri tekjuskattur á fyrirtækin í landinu. Ég er ekki hingað komin til að tala fyrir frekari skattahækkunum en nú er og stærsta vandamálið í mínum huga er hvað útgjaldahliðin er lítið snert. Þar finnst mér ríkisstjórnin einfaldlega ekki eiga nein alvörusvör og fjármálaráðherra, sem fer með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála, þarf að draga úr umsvifum ríkisins. Næg yfirbygging þar gefur sannarlega tilefni til þess og þetta þarf að gerast ef það á að hjálpa til með verðbólguna.

Hér er talað um aðgerðir gegn verðbólgu, t.d. með spjalli um sameiginleg vinnurými og mannauðsmál í umræðu um verðbólgu. Þetta er allt gott og gilt, en þetta eru ekki aðgerðir af þeirri stærðargráðu eða nægilega nálægar í tíma til þess að hafa áhrif núna strax. Fjármálaráðherra fer nú aftur með ræðuna sem ég hlustaði á hann flytja í umræðu um fjárlög síðasta haust þegar hann talar um tækifæri í fækkun stofnana. Ég er honum einlæglega sammála þar, en eins og þá eru þetta hugrenningar ráðherra sem lætur sig dreyma um að gera betur því við sjáum engar beinar tillögur og engar tímasettar ákvarðanir eða aðgerðir. Þetta eru hugrenningar um það sem betur mætti fara. Seinna eiga ríkisstofnanir kannski að verða færri og einhvern tíma gæti það gerst.

Fjármálaáætlunin er plagg með hugmyndum, plagg sem sýnir alls konar sviðsmyndir en þar mjög lítið um tímasettar ákvarðanir og engar raunverulegar hagræðingartillögur. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur segir t.d. að það sé einfaldlega ekki verið að bregðast við stöðunni í dag heldur er verið að tala um einhverjar mögulegar breytingar í framtíðinni og þar af leiðandi er ekki nógu mikið hér sem mun hafa áhrif á verðbólguna eins og hún horfir við okkur í dag. Það er verkefnið. Á léttari nótum mætti kannski segja að fjármálaáætlunin sé dálítið eins og fyrirheit um æfingaprógramm, en æfingaprógrammið hefst seinna, byrjar 2024 og gæti skilað þjóðinni í kjólinn fyrir jólin 2028; prógramm sem boðar skýr skilaboð, metnaðarfull markmið og svo er bara að byrja — einhvern tíma seinna.

Heiðarlegra hefði verið að segja eins og er: Ríkisstjórnin hefur greinilega ekki komið sér saman um hagræðingaraðgerðir um hvar eigi að draga úr ótrúlegum umsvifum og ótrúlegum útgjöldum. Þess vegna hefði líka verið heiðarlegra að segja: Þess vegna ætlum við að gera óskaplega lítið. Auðvelda leiðin fyrir ráðherrana er farin, einstaka framkvæmdum er frestað en raunveruleg hagræðing í rekstri ríkisins verður engin. Aftur sjáum við að þessi samsetning ríkisstjórnarinnar leiðir til þess að hagsmunir almennings fara aftast í röðina, því að það er of erfitt að taka ákvarðanir. Ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um aðgerðir eða sýn og úr verður ævintýralega rugluð niðurstaða eins og við erum að horfa upp á hér. Þessi niðurstaða er á kostnað almennings sem finnur nú þegar rækilega fyrir verðbólgunni og háum vöxtum. Þetta fólk hefur, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, misst trúna á að ríkisstjórnin geti náð verðbólgunni niður.

Hér er fram komin áætlun sem þarf líka að lesa út frá því sem hún segir ekki. Hvar eru markmiðin um að greiða niður skuldir og greiða þær hraðar niður? Hvar eru markmiðin um að lækka viðskiptahalla? Skýr svör við þessum spurningum gætu hjálpað við að endurheimta trú fólks á að ríkisstjórnin geti náð verðbólgunni niður. Þangað til þessi svör liggja fyrir mun enginn raunverulegur árangur nást og vandamálið er að fjármálaáætlunin geymir því miður ekki þessi svör.

Allir armar þurfa að róa í sömu átt, sagði í kynningu hæstv. fjármálaráðherra um daginn, en svo virðist sem hér sé títtnefnd armslengd aftur komin fram. Hæstv. fjármálaráðherra virðist í armslengd frá bátnum á meðan aðrir róa og það er af þessari ástæðu sem Seðlabankinn hefur tólf sinnum í röð hækkað stýrivexti, það er af þessari ástæðu sem ungar barnafjölskyldur eru að kikna undan vaxtakostnaði á húsnæðislánum og það er af þessari ástæðu sem annað ungt fólk sér fram á að geta ekki keypt sér íbúð. Aðgerðaleysi eins og þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Og talandi um armslengd, þá er áframhaldandi sala á Íslandsbanka enn inni í forsendum til að planið gangi upp. En það er hins vegar búið að senda út fréttatilkynningu sérstaklega um það að fasteignasalan, bankasalan, hafi verið lögð niður. Síðast fyrir nokkrum dögum birtist fjármálaráðherra í fréttum og sagði ekkert samkomulag vera til staðar um það hvernig ætti að standa að sölunni. Ekkert samkomulag í ríkisstjórn. Þetta er eitt atriði af mörgum sem ekki hefur verið leyst og er salan því augljóslega í uppnámi. Það hefur vond áhrif á ríkissjóð og þetta eru vonbrigði.

Forseti. Undanfarið hefur fjármálaráðherra talað mikið um góða stöðu Íslands. Það er alveg rétt að staðan hér er vissulega að mörgu leyti góð. Þrennt nefnir hann sérstaklega. Fyrst er það nýjasta tískuorðið, frumjöfnuðurinn. Frumjöfnuðurinn er að batna, en vandamálið er að þetta er fáránlegur mælikvarði á afkomu. Dálítið eins og að segja að afkoma á heimilinu sé góð áður en búið er að taka afborganir af lánum með í reikninginn. Auðvitað verðum við að horfa á heildarafkomuna, það er hún sem máli skiptir. Þjóð sem er með tvöfalt hærra hlutfall vaxtakostnaðar en aðrar þjóðir hlýtur að miða við heildarafkomuna.

Síðan er það lága skuldahlutfallið. Hin hliðin hér er að fá Evrópuríki eru með hærra vaxtahlutfall og hærri vaxtakostnað en Ísland, og ríkið er kannski að þessu leyti í sömu stöðu og heimilin. Það er vaxtakostnaðurinn sem er að sprengja allt; að tala bara um lánshlutfallið en ekki kostnaðinn af lánunum segir aldrei söguna alla. Íslenska ríkið greiðir háa vexti og ein ástæða þess er auðvitað gjaldmiðillinn sem við búum við í dag.

Þegar Viðreisn hefur spurt hvers vegna þurfi margfalt hærri vexti hér á landi við svipuð verðbólguskilyrði og annars staðar, er svarið yfirleitt alltaf að það sé vegna þess að hér sé svo mikill hagvöxtur. Nýverið komu fram áhugaverðar tölur frá BHM sem sýna að þetta er ekki alveg svo. Hér virðist bara vera meiri hagvöxtur þangað til tekið er með í reikninginn breytingar á mannfjölda. Okkur er enn að fjölga. Hagvöxtur á Íslandi er minni á mann en í nágrannalöndum okkar og það verður að skoða hagvöxt með tilliti til fólksfjölda. Þegar hagvöxturinn eykst vegna fólksfjölgunar, eins og hér á landi núna, þarf að metta fleiri munna og enginn fær meira. Við sjáum það líka í töflum frá OECD, þar sést sú mynd mjög skýrlega að við erum eftirbátar flestra þjóða þegar kemur að hagvexti.

Forseti. Mig langar aðeins til að ræða hraðann eða skort á hraða á aðgerðum. Ríkisstjórnin er sein að bregðast við. Lærdómurinn af efnahagsaðgerðum í heimsfaraldri var að það skiptir máli að aðgerðirnar komi inn á réttum tíma. Hinar hvetjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda komu sumar hverjar fram of seint. Það hefur áhrif á efnahagskerfið og það sama virðist vera að endurtaka sig núna. Komi á annað borð fram einhverjar aðgerðir til að draga úr verðbólgu þá verða þær mjög líklega seinar á ferðinni.

Það sem er í grunninn að gerast er of lítið og of seint. Við heyrðum svo sannarlega varnaðarorð þegar við vorum að ræða fjárlagafrumvarpið hér síðasta haust. Þá varaði þingflokkur Viðreisnar t.d. við því að ríkisstjórnin væri að skilja Seðlabankann einan eftir í glímunni við verðbólgu. Ég ætla ekki að halda því fram að við höfum ein bent á þetta, aldeilis ekki. Aðilar vinnumarkaðarins sögðu það sama og fjölmargir aðrir. Seðlabankastjóri sagði meira að segja það sama. Það var bara ekki hlustað. Þrátt fyrir öll varnaðarorð heimsins valdi fjármálaráðherra að skila fjárlögum fyrir þetta ár með 120 milljarða kr. halla. Þar var mikilvægu tækifæri kastað og fyrir það borgar almenningur núna. Í staðinn valdi ríkisstjórnin að keyra verðbólguna enn frekar upp með gjaldahækkunum.

Viðreisn benti á að það er ekki hægt að ræða fjárlagapólitík án þess að ræða skuldir og áhrif þeirra. Nú þegar þessi fjármálaáætlun liggur fyrir þá benda Samtök atvinnulífsins og ASÍ aftur á að hér er ekki verið að stíga þau skref sem þarf, að fjármálaáætlunin taki ekki þau stóru skref sem þarf til að ná verðbólgunni niður. Stærsta aðgerðin núna í þágu heimilanna er auðvitað sú að ná verðbólgunni niður. Skyldi ríkisstjórnin ætla að leggja við hlustir í þetta sinn þegar varnaðarorðin heyrast frá hagfræðingum, frá aðilum vinnumarkaðarins og fleirum?

Orð fjármálaráðherra við kynningu fjármálaáætlunar sýna að hann tekur til sín að markaðurinn sé að missa trúna á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti náð verðbólgunni niður. Breiðu strokurnar eftir kynningu á fjármálaáætlun eru þær að hér er hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, ekki að boða neinar raunverulegar aðgerðir til að hagræða í rekstri eða skera niður. Útgjaldapólitíkin er í grunninn að mestu hin sama. Við erum öll sammála um það að verja heilbrigðiskerfið, almannaþjónustuna og löggæsluna, en það eru tækifæri til staðar. Það er lítið talað um það hvernig eigi að flýta því að greiða niður skuldir og lækka svimandi háan vaxtakostnað íslenska ríkisins. Þetta myndi auðvitað hjálpa til við að ná niður verðbólgu. Ísland ætlar sem fyrr að blanda sér alvarlega í baráttuna um Evrópumeistaratitilinn í vaxtakostnaði. Ríkisstjórnin ætlar að reka ríkið áfram með halla, að manni sýnist út árið 2027 á dýrum lánum.

Þegar fjármálaáætlunin er skoðuð þá verður skiljanlegt hvers vegna seðlabankastjóri talaði ekkert um ríkisfjármálin þegar hann boðaði tólftu stýrivaxtahækkunina í röð. Kannski hafði hann líka misst trú á því að ríkisstjórnin gæti ráðið við verkefnið og að ríkisstjórnin ætli að styðja Seðlabankann í baráttunni við verðbólguna. Það er jákvæðari tónn í honum núna og ég vona að það verði til þess að ríkisstjórnin leggi við hlustir og stígi stærri skref, svo heimilin þurfi ekki að setja sig í stellingar fyrir það að fá á sig þrettándu vaxtahækkunina í röð af því að fjármálaáætlunin geymir ekki þær aðgerðir sem þarf.

En nú er það líka að gerast að öll fyrirtæki eru að fá á sig skattahækkun. Lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að glíma við verðbólgu og vaxtahækkanir eiga nú að taka á sig skattahækkanir í ofanálag.

Forseti. Ríkisstjórnin er skýr um að ætla að koma þeim til aðstoðar sem verst eru sett. Það er jákvætt og mikilvægt og ég styð þá hugmyndafræði heils hugar. Verðbólga kemur alltaf verst niður á þeim sem minnst hafa fyrir. Sömuleiðis vil ég endurtaka hið augljósa, að almannaþjónustuna á að verja. En eins og ríkið hefur verið rekið hjá þessari ríkisstjórn þá er hægt að hagræða og það myndi hjálpa fólkinu í landinu ef það væri gert. Þannig væri hægt að ná árangri, ná verðbólgunni niður og endalausar vaxtahækkanir myndu hætta að meiða fólk. Óbreytt ástand í ríkisfjármálunum er vondar fréttir fyrir millistéttina, því að hún á áfram að taka á sig hækkandi vaxtakostnað og verðbólgu og þessi rekstur á ríkissjóði er núna að skila fyrirtækjum landsins skattahækkun. (Forseti hringir.)

Í lokin, forseti, vil ég segja að mér finnast stóru spurningarnar til ríkisstjórnarinnar vera: Hvar eru markmiðin um að greiða niður skuldir? Hvar eru markmiðin um að lækka viðskiptahalla? Það eru þessi svör sem máli skipta. Þar til þau liggja fyrir mun millistéttin og litlu og meðalstóru fyrirtækin taka reikninginn og búa áfram við háa verðbólgu og mjög háa vexti. Þar myndi birtast í sinni skýrustu mynd hvernig það lítur út að láta aðra taka reikninginn fyrir sig.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir þingmenn á ræðutíma.)