Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að því að ég hef gjarnan rætt um frumjöfnuðinn. Ég tel að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig hann þróast vegna þess að hann sýnir muninn á tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Munurinn getur gagnast okkur til að standa undir vaxtagjöldum eða eftir atvikum að greiða upp skuldir, eins og hv. þingmaður leggur svo mikið upp úr í sínu máli. Því held ég að hv. þingmaður hafi mögulega vanmetið það hversu miklu máli skiptir að frumjöfnuðurinn vaxi ár frá ári. Nú er hann að aukast mjög verulega á þessu líðandi ári umfram það sem við áætluðum í fjárlögum, það er mjög mikilvægt.

Á bls. 133 í þessu skjali erum við í fyrsta skipti að sýna hvernig vaxtagjöldin brotna upp á milli þess sem við þurfum að greiða, sem eru gjaldfærðu vextirnir, og hins vegar hvernig vaxtagjöldin flokkast í verðbætur annars vegar og reiknaða vexti á lífeyrisskuldbindingar hins vegar. Þarna sjáum við hvar við erum með vaxtagjöld sem verður að greiða á árinu og hafa áhrif á sjóðstreymið. Á þessum tölum má sjá að mikið gagnsæi er sýnt í uppgjöri ríkisins, borið saman við aðrar þjóðir, vegna þess að reiknaðir vextir vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga framtíðar eru almennt ekki hluti af opinberri umfjöllun um fjármál ríkja og verður að taka tillit til þess þegar við ræðum um vaxtagjöldin í heild sinni.

Ég saknaði þess að hv. þingmaður fjallaði nánar um allar þessar hagræðingaraðgerðir og sparnaðarúrræði sem hún virðist sakna úr þessari áætlun, vegna þess að við erum að leggja hér fram hugmyndir um margvíslegar aðgerðir sem snúa bæði að skrifstofuhaldi en líka sameiningu stofnana og öðrum úrræðum eins og stafvæðingu verkefna og öðru slíku, sem eru til þess fallnar að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins. En þegar sagt er að þetta sé allsendis ófullnægjandi þá vonast maður auðvitað til að fá einhverjar tillögur.