Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hæstv. fjármálaráðherra er óskaplega hrifinn af þessu orði, frumjöfnuður, og ekki ætla ég að gera athugasemdir við að hann noti það. Ég er hins vegar bara að benda á að þar með er ekki öll sagan sögð, verið er að segja hluta sögunnar.

Varðandi þær hagræðingartillögur sem ég hefði áhuga á að fara í þá hefði ég haldið að það væri heillavænlegt, af því að ég sé að ríkisstjórnin er í því að fresta einstaka framkvæmdum og kippa þeim úr sambandi og eru notaðar meira til að jafna sveiflur, að viðurkenna að þær eigi sér sjálfstæðan tilgang.

Ég hef nefnt reksturinn og geri athugasemdir við það að í þessum hagræðingartillögum eru sviðsmyndir um sameiningar stofnana. Þessar sviðsmyndir voru okkur sýndar líka síðasta haust. Það eru engar konkret tillögur, engar konkret hugmyndir, engin konkret tímalína — það er ekkert sem bendir til þess að hugmyndir fjármálaráðherra, sem eru ágætar, muni yfirleitt ná fram að ganga. Ég get bara sagt að ég er skoðanasystir hæstv. fjármálaráðherra hvað þetta varðar en hef mjög litla trú á því að þetta muni raungerast.

Mig langar til að fá fram sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra um viðskiptahallann. Viðbótartekjur ríkissjóðs eru fyrst og fremst vegna viðskiptahallans að manni sýnist. Þýðir það ekki að ríkissjóður er að auka tekjur sínar vegna þess að þjóðarbúið í heild er að auka erlendar skuldir? Og ef ríkisfjármálin ættu í alvöru að hafa áhrif á verðbólgu, ætti þá ekki miða að því að lækka viðskiptahallann? Orðræðan bendir einhvern veginn ekki til þess að þetta sé markmiðið. Ég myndi vilja spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvaða markmið ríkisstjórnin hefur sett sér um það að lækka viðskiptahallann. Og er markmiðið að nota tekjuaukann til að greiða niður skuldir? Þetta tvennt held ég að sé eini raunhæfi mælikvarðinn á því hvort ríkisstjórnin sé í raun að vinna gegn verðbólgunni.