Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara hagvöxturinn á Íslandi sem hefur útskýrt vextina eins og hv. þingmaður hefur komið inn á, heldur eru það verðbólguvæntingarnar til lengri tíma. Hins vegar hefur oft verið nefnt að hagvöxtur á Íslandi hefur verið miklu meiri en í nágrannaríkjunum undanfarin ár, sérstaklega á evrusvæðinu, sem hefur verið ástæða þess að vextir hafa verið svo lágir þar. Þessu vildi ég koma að í umræðunni um skýringu á háu vaxtastigi. Ég tel að meginástæðan fyrir háum verðbólguvæntingum til framtíðar litið liggi hjá vantrú fólks á því að það sé hægt að ná skynsamlegri niðurstöðu á vinnumarkaði með langtímasamningum sem samrýmast framleiðnivexti í landinu.

Af því að hér hefur verið talað um hlut fjármálaáætlunar við að hafa áhrif á verðbólguvæntingar, þá hlýt ég að þurfa að benda á það hér að vextir eru að lækka í dag; vextir á fimm ára ríkisskuldabréfum eru að lækka umtalsvert í dag. Lækkunin er miklu meiri en við sjáum í dagssveiflum frá degi til dags. Ef við horfum til þess sem hefur safnast upp núna síðastliðinn mánuð þá hafa vextirnir lækkað umtalsvert til fimm ára, eða um heilt prósentustig. Það sýnir að markaðurinn er smám saman að fá aukna trú vegna aðgerða Seðlabankans og fjármálaáætlunar og áherslu ríkisstjórnarinnar, og ég ætla ekki að gera lítið úr því að lækkandi verðbólguhorfur í útlöndum geta líka haft áhrif hér.

Viðskiptahallanum getum við kannski fyrst og fremst eytt með því að skapa svigrúm fyrir fyrirtæki á Íslandi sem framleiða vörur til útflutnings. Það eru uppi áform á Íslandi um margvíslega fjárfestingu, t.d. í iðnaði. Orkufyrirtækin eru að fara að framleiða græna orku á komandi árum, eins og við lýsum aðeins í áætluninni, og allt það sem er að gerast, t.d. í fiskeldi og orkufrekum iðnaði, áform um að fara í rafeldsneytisframleiðslu og annað slíkt, getur hjálpað til við að auka útflutningstekjurnar, fyrir utan það sem er að gerast í tæknigeiranum, hugverkinu, á Íslandi. (Forseti hringir.) Þar eru tekjurnar farnar að vaxa, m.a. á grundvelli stuðnings við rannsókn og þróun í landinu. Ég held að útflutningstekjuútlitið sé mjög gott á Íslandi.