Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið en ég hefði viljað fá svar við því hvaða markmið ríkisstjórnin hefur sett sér um lækkun viðskiptahallans. Þetta er ákveðið hjarta í þessu, þungamiðja. Hvaða markmið hefur ríkisstjórnin sett sér um að lækka viðskiptahallann? Þetta er kjarnaatriðið ef baráttan við verðbólgu á að vera trúverðug. Ég óska eftir því að fá skýr svör við þessari spurningu og sömuleiðis um þetta atriði sem ég nefndi hér fyrr. Á að nota allan tekjuaukann sem er að skapast til að greiða niður skuldir?

Þegar við erum að ræða hlutverk ríkisfjármálanna í þessu sambandi þá hljótum við að vera að horfa mjög mikið á þessa tvo punkta. Síðan hefði ég áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra um þessar mælingar, hvernig við mælum hagvöxtinn, af því að það er mjög mikið rætt um það að Ísland sé fyrirheitna landið hvað varðar hagvöxt. En þegar við skoðum þessar tölur sem ég nefndi frá BHM þá sjáum við að hagvöxtur á Íslandi er minni á mann en í nágrannalöndum okkar. Er ekki eðlilegt að skoða hagvöxtinn með þeirri framsetningu?

Ég myndi vilja heyra meira um viðskiptahallann og markmiðin þar um. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hagvöxtinn og kannski að síðustu hvernig hann metur töluvert einbeitta og þunga gagnrýni frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ um að í þessari fjármálaáætlun séu ekki tekin nægilega stór og markviss skref til að vera trúverðug um það að ná verðbólgu og verðbólguvæntingum niður.

(Forseti (AIJ): Hv. þingmaður verður að bíða með að fá svör við þessum spurningum því andsvörum er lokið.)(ÞorbG: Ég átta mig á því.)