Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega áhugavert að vera að ræða það, í 1. umr. um fjármálaáætlun, hversu marga fermetra hver einstakur ríkisstarfsmaður þarf. En allt í lagi, þetta eru sannarlega hlutir sem við eigum að velta fyrir okkur. Ég er ekki að gera lítið úr því. Ég tók eftir því þegar ég var sendur á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í haust — að ganga t.d. um New York borg, og þú lest fréttir frá Bandaríkjunum og frá Evrópu þar sem verið er að loka fullt af skrifstofuhúsnæði. Hvers vegna er það að gerast? Það er vegna þess að þegar Covid var í gangi voru starfsstöðvar fólks í meira mæli fluttar heim. Ég held að einn af lærdómum Covid-tímans sé einfaldlega sá að við getum leyst hlutina öðruvísi en við gerum. Auðvitað þarf líka að ræða þetta við fólkið og taka tillit til þess í þeirra ráðningarkjörum og starfssamningum og slíku. En þetta er samt hinn nýi veruleiki, að við þurfum ekki skrifstofu utan um hvern starfsmann. Hvað varðar sameiningu stofnana, í þeirri umræðu, er þetta angi af sömu þróun, stafvæðing og bætt fjarskipti og síðan hvar fólk velur að vinna. En hvort við getum náð þessu niður um 40%, ég ætla ekkert að úttala mig um það hér. En stóra málið er þetta: Eftir því sem við beitum markvissari aðgerðum til að hafa skilvirkni í ríkisrekstrinum að leiðarljósi í ákvörðunum okkar þá trúi ég að við getum sparað og við höfum nú þegar sparað verulegar fjárhæðir í ríkisútgjöldum af því að við höfum stigið þessi skref og fjárfest í stafvæðingu.