Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það verður engin minningargrein hér, en ég verð að segja að mér finnst þetta á einhvern hátt táknrænt af því að ég ætla að draga þá ályktun að þetta sé í síðasta skipti sem við hv. þingmaður eigum orðastað hér, í ljósi þess að hann er að hverfa til annarra starfa í lok næsta mánaðar eða þar um bil. Þá þykir mér viðeigandi að það skuli vera um fjármálaáætlun, því að ég held ég fari rétt með að hv. þingmaður hefur setið í fjárlaganefnd öll sín þingár eða því sem næst. Ég hef átt samstarf með honum bæði sem samstarfsaðili í fjárlaganefnd þegar hann var formaður og ég varaformaður, þótt í stuttan tíma hefði verið, og síðan setið með hv. þingmanni í atvinnuveganefnd. Ég segi, líkt og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson gerði hér á undan, að ég á eftir að sakna hv. þingmanns og veit að það verður sjónarsviptir að honum héðan úr þingsal og úr umræðunni.

Að því sögðu langar mig til að velta nokkru upp og biðja hv. þingmann að setja á sig spámannshattinn. Staðreyndin er sú að við vinnu fjárlaga eða fjármálaáætlana undanfarin ár hefur reyndin verið að útgjöld hafa aukist í meðförum fjárlaganefndar en ekki dregist saman. Það hefur verið pressa á það og það er ósköp skiljanlegt. Hér í umræðunni hefur verið talað um að það hafi vantað aðhald í þetta plagg, sérstaklega í ljósi ástandsins í efnahagsmálum. Hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, sagði: Sjáum til hvað verður úr vinnunni, aðspurður um þetta og gaf því undir fótinn að einhverjar aðhaldsaðgerðir gætu komið út úr vinnu fjárlaganefndar. Í ljósi þess að reyndin hefur verið akkúrat þveröfug, telur hv. þingmaður líklegt að svigrúm verði til þess að bæta í aðhaldsaðgerðir; hjálpa Seðlabanka Íslands, almenningi og fyrirtækjum þessa lands með aðhaldsaðgerðum ríkisins betur en gert er í fjármálaáætlun eins og hún lítur út núna? Telur hv. þingmaður, ef hann er til í að setja á sig spámannshattinn, að hægt sé að búast við því í meðförum fjárlaganefndar?