Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:24]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra svörin sem vísa m.a. á eftirlitsnefndina sem hefur auðvitað aðvarað Reykjavíkurborg. Staða Reykjavíkurborgar er jú erfið en hún er erfið af því að þrátt fyrir stórauknar tekjur hefur lítill eða enginn afgangur verið af rekstri til að standa undir m.a. vaxtagjöldum, afborgunum og fjárfestingum o.fl. Við sjáum það nú þegar og öll teikn eru á lofti um að ríkisfjármálin haldi áfram að snúa til betri vegar. Við höfum gert raunhæfar áætlanir og áætlanir okkar hafa ekki bara staðist heldur er útlit fyrir að við náum markmiðum okkar á undan áætlun.

Hvað varðar Reykjavíkurborg er auðvitað allt gert til þess að halda uppi leiksýningu gagnvart borgarbúum og væntanlega stjórnvöldum, eftirlitsaðilum. Þannig segir borgarstjóri fjárhagsstöðu borgarinnar vera sterka og standa vel. Frávik frá rekstraráætlun borgarinnar eru meiri háttar og hallinn margfaldur á við það sem hefur verið áætlað og meiri hlutinn í Reykjavík leggur fram misvísandi gögn til þess að styðja við sýninguna.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við áttum okkur á stöðunni í stærsta sveitarfélagi landsins, stöðu sem hefur óumdeilanleg áhrif á opinber fjármál. Ég spyr því hæstv. innviðaráðherra að því af hverju innviðaráðuneytið hefur sem eftirlitsaðili ekki stigi stigið fastar til jarðar. Er ekki full ástæða til þess? Af hverju hefur Reykjavíkurborg t.d. verið heimilað að leggja fram samantekin reikningsskil í stað samstæðu ársreikninga eins og henni ber skylda til lögum samkvæmt?