Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun á bls. 393 segir um húsaleigumarkaðinn eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við áherslur sem fram koma í ríkisstjórnarsáttmálanum. Samkvæmt leigumarkaðskönnun HMS 2022 telja 65% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi. Sé litið til þróunar leiguverðs samkvæmt vísitölu leiguverðs hefur leiguverð farið hækkandi undanfarna mánuði. Tólf mánaða hækkun leiguverðs nemur 10,3% miðað við janúar 2023 og hefur ekki verið meiri frá því í byrjun árs 2018 en leiguverð lækkaði um tíma, m.a. vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.“

Við þingmenn fengum í dag skýrslu Leigjendasamtakanna sem sýnir svart á hvítu vanmat stjórnvalda á vanda leigjenda. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mælir bara skráða leigusamninga á meðan raunveruleg þróun á húsaleiguverði er einfaldlega allt önnur. Samkvæmt upplýsingum Leigjendasamtakanna er raunveruleg staða leigjenda mun verri en tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýna og ég vil leyfa mér að efast um að 10% leigjenda telji sig búa við húsnæðisöryggi í dag, hvað þá 65%. Samfélagið hefur kallað eftir því að hér verði sett leigubremsa líkt og þekkist víða um Evrópu og Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp þess efnis. Myndi hæstv. ráðherra styðja slíka aðgerð? Og að gefnu tilefni, hæstv. ríkisstjórn, ég skora á ykkur að hætta að skattleggja fátækt.