Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er af mörgu að taka hjá hæstv. ráðherra af áhugaverðum málaflokkum en mig langar að spyrja út í samgöngur og uppbyggingu samgöngukerfis til framtíðar. Í áætluninni er vikið að því að efling almenningssamgangna ásamt aukinni hlutdeild göngu og hjólreiða um allt land sé lykilþáttur í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum en framkvæmdaraðilinn í þessum hluta samgöngukerfisins er oftar en ekki sveitarfélögin. Við höfum undanfarið ítrekað heyrt fréttir af því hvernig fjárhagsstaða þeirra er þannig að mig langar að fá ráðherrann til að segja mér hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um aukna aðkomu ríkisins í að lyfta undir þennan þátt hjá sveitarfélögunum vegna þess að það skiptir lofthjúpinn litlu máli úr hvorum vasa hins opinbera peningurinn kemur ef við ætlum að ná árangri í þessari sameiginlegu baráttu okkar.

Í áætluninni kemur t.d. fram að það sé unnið að endurskoðun á samningi ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna en á grundvelli þess samkomulags hefur milljarður runnið frá ríkinu ár hvert til kerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Mætti ekki hækka þetta framlag dálítið hressilega núna þegar endurskoðunin fer fram? Er búið að reikna út hvað hver viðbótarmilljarður inn í kerfið eins og það er í dag — kerfi dagsins í dag, forseti, ég er ekki að tala um borgarlínuna í framtíðinni sem við hlökkum öll til að sjá heldur hverju myndi hver milljarður í almenningssamgöngur og hjólastíga á næsta ári skila í samdrætti gróðurhúsalofttegunda og hvað er ráðherrann tilbúinn til að bæta mörgum slíkum inn í uppfærðan samning ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að við náum auknum árangri?