Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:49]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef komið inn á fyrr í dag í umræðu við einstaka þingmenn þá er áskorunin kannski aðallega sú í þessari fjármálaáætlun að reyna að slá niður verðbólgu. Við erum hins vegar einnig að reyna að verja ákveðnar fjárfestingar af því að það skiptir svo miklu máli og að aðhaldið snúi þá frekar að rekstri og þjónustu en ekki fjárfestingunum. Óhjákvæmilega getum við ekki blásið í lúðra og aukið við fjárfestingarnar á sama tíma og aukið þannig þensluna. Á sama tíma hefur t.d. samgönguvísitalan hækkað um 30% þannig að einhverjum verkefnum sem við vorum með fyrir tveimur árum og gátum raðað upp fjölda þeirra hefur fækkað sem þessu nemur, um 30%. Það er auðvitað áskorun út af fyrir sig. Það er að hluta til ástæðan fyrir því að menn hafa farið í endurskoðun á höfuðborgarsáttmálanum, verkefnunum þar, og sagt einfaldlega: Sum hafa vaxið mjög mikið í kostnaði miðað við nýjustu upplýsingar og þróun, eigum við að forgangsraða þeim einhvern veginn öðruvísi? Eigum við að fara í framkvæmdaáætlunina og sjá hvort það sé hægt að raða þeim á einhvern annan hátt til að ná ávinningnum fyrr, loftslagsins vegna eða annarra hluta vegna? Það er sú vinna sem er í gangi. Nákvæmlega hvernig sú vinna endar, sem sagt mat á kostnaðinum við einstakar framkvæmdir, samanburður á framkvæmdum og síðan hugsanlega breytt forgangsröðun í kjölfarið, þori ég ekki að fullyrða en þetta eru markmiðin með þessu við þessar undarlegu aðstæður þar sem öll verð hafa hækkað um tæplega 30%. Sumar af framkvæmdunum voru líka kannski bara metnar á einhverju forhönnunarstigi með mjög mikilli óvissu og hafa kannski hækkað miklu meira en 30% og hugmyndirnar hafa jafnvel stækkað líka. Þannig að ég sé alveg fyrir mér (Forseti hringir.) að við höldum áfram með þetta verkefni. Kannski þarf einfaldlega að lengja í því til að ná utan um það. (Forseti hringir.) En verkefnið er gott og mikilvægt að uppfæra það.