Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:52]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu brýningu og skal halda fókus mínum beint fram, sér í lagi fyrir míkrófóninn. Þar munaði minnstu að ég sneri mér. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég held að við sem erum í þessum sal skiljum alveg þessa stöðu sem uppi er í samfélaginu en á sama tíma hefur sú staða breyst ansi hratt í ljósi fyrst og fremst ytri aðstæðna. Berandi þá von í brjósti að þær aðstæður breytist líka, þó að sannarlega þurfi að ráðstafa fjármunum með það að markmiði að hægja á verðbólgu, í ljósi þeirra talna sem hæstv. ráðherra fór mjög ágætlega yfir hér þá langar mig samt sem áður að nota tækifærið og forvitnast — því að mér heyrist ég og hæstv. ráðherra vera alveg sammála um mikilvægi þess að leggja áherslu á þessar auknu umhverfisáherslur þegar kemur að samgönguinnviðum og almenningssamgöngum — og langar að spyrja hæstv. ráðherra, ef mér tækist það, virðulegi forseti, hvort hann sjái fyrir sér, ég veit að við erum að fjalla hér um akkúrat þessi afmörkuðu ár og þær tölur sem undir eru í því samhengi, ef hagur myndi nú vænkast, að við myndum forgangsraða enn frekar og betur til þess að styðja við uppbyggingu almenningssamgangna, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um landið allt.