Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Það er erfiðara núna en áður fyrir ungt fólk að eignast sína fyrstu íbúð. Húsnæðislánin eru dýr og greiðslumatið þyngra en áður. Fólk á íslenskum leigumarkaði býr við fáránlega erfiðar aðstæður. Það að afmarkaður hluti samfélagsins, ungt fólk, barnafjölskyldur, taki á sig allar vaxtahækkanir af fullum þunga hefur því miður þær augljósu afleiðingar að næstu árgangar munu ekki komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þegar aðstæður breytast skyndilega í efnahagsmálunum og það þarf að draga úr útgjöldum til að tækla verðbólguna er alltaf auðveldara að slá fjárfestingarverkefnum á frest en að fara í pólitískt erfiðar umbætur á rekstri en framtíðarhagvöxtur byggir að hluta á fjárfestingum í innviðum. Þess vegna þarf að tryggja nægt svigrúm til verkefna sem geta byggt undir framtíðarhagvaxtargetu.

Aðstæður í dag eru þannig að það reynist flestum ungum kaupendum ómögulegt að kaupa íbúð ef pabbi eða mamma geta ekki hjálpað til og átaksverkefni á borð við húsnæðissáttmála um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum, eins ágæt og þau eru, leysa ekki bráðavandann í dag. Eftirspurnin er horfin og það er hætta á því að ef hægist á öllu núna í framkvæmdum þá séum við að skapa næstu fasteignabólu. Fyrstu kaupendur eiga auðvitað að geta keypt sér íbúð án þess að mamma og pabbi séu með að kaupa. Það er ekki veruleikinn í dag. Ég er reyndar á því að til þess að laga þetta þurfi kerfi af hálfu hins opinbera sem tekur á þeirri þörf sem kemur inn á húsnæðismarkaðinn á hverju ári því það ástand sem hefur ríkt á húsnæðismarkaðnum síðustu ár sýnir að almenni markaðurinn leysir vandamálið ekki einn. Þetta er og verður viðvarandi verkefni stjórnvalda.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hverjar varnir ríkisstjórnarinnar eru gagnvart því að byggingamarkaðurinn er núna á leiðinni í frost eða hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru við þessum afleiðingum vaxtahækkana á bygginga- og fasteignamarkaðinn núna.