Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:58]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst verðum við að gera okkur það ljóst að það er vissulega alltaf svolítið erfitt að fara inn á húsnæðismarkaðinn. Það var þó þannig að fyrir nokkrum árum hafði okkur tekist það með ýmsum hætti, það var talsvert byggt, við vorum nýbyrjuð með almennu íbúðirnar og hlutdeildarlánin og vextir fóru mjög neðarlega, að fyrstu kaupendur voru komnir allt í 35%.

Það er eitt sem gleymist oft í umræðunni og það eru lög sem tóku gildi 2017 um fyrstu fasteign, sem er gríðarlega góð leið fyrir fyrstu kaupendur að safna sér fyrir útborgun eða taka þátt í að niðurgreiða höfuðstólinn, eða jafnvel greiðslubyrði séu menn með óverðtryggð lán. Ég held að við séum of lítið að tala um þetta og ég held að það séu allt of margir þarna úti sem annaðhvort vita ekki um þetta eða nýta sér þetta ekki, þ.e. nýta þessa séreignarsparnaðarleið. Til viðbótar núna um áramótin breyttist það að fólk getur notað hluta af tilgreindri séreign til að bæta úr lífeyrissjóðnum sínum inn á þessar greiðslur þannig að það hjálpar auðvitað fyrstu kaupendum.

Við megum heldur ekki gleyma því að ríkið er ekki að slást við Seðlabankann. Seðlabankinn hefur verið að slá á húsnæðismarkaðinn og kannski sérstaklega á fyrstu kaupendur. Við erum hins vegar að horfa á þennan lægsta tekjuhóp sem myndi falla inn í þessi tekjuviðmið og eignaviðmið er varðar almennu íbúðirnar með stofnframlögum og hlutdeildarlánum og ég held að það sé mikilvægt að við förum þar inn. En aðalatriðið, eins og ég er nokkrum sinnum búinn að segja hérna, er að slá niður verðbólguna. Það er mikilvægasta verkefnið.

Svo ætla ég að leiðrétta þingmanninn varðandi eitt, sem ég held að hún hafi bara misst út úr sér: Það er ekki átak að byggja 35.000 íbúðir í tíu ár. Þetta er langtímastefna. (Forseti hringir.) Þetta er ekki átak sem við ætlum að fara að gera eitthvað einn, tveir og þrír, heldur er þetta langtímastefna sem verður viðvarandi sýn til langrar framtíðar.