Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:03]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki verið nægilega skýr áðan, ég skal vera það núna. Ég er sammála hv. þingmanni að við getum ekki treyst á að markaðurinn sjái um þetta. Þannig hefur þetta verið marga áratugi aftur í tímann. Það er þess vegna sem við erum að koma með þessa kerfisbreytingu, við erum að koma fram með áætlun um húsnæðisstefnu í fyrsta sinn. Þessi tíu ára áætlun er samningar við sveitarfélögin. Áætlunin verður til 15 ára og hún verður síðan uppfærð reglulega þannig að maður er alltaf kominn með 15 ára áætlun og 5 ára aðgerðaáætlun og það er það sem við erum að leggja af stað með. Þetta er kerfisbreyting. Hún hefur langtímaáhrif, hefur auðvitað langtímaáhrif á væntingar um verðbólgu, hefur áhrif á byggingaraðilana, þeir vita þá til lengri tíma hvað er, hún hefur áhrif á sveitarfélögin, en til að tryggja að það séu til nægilega margar lóðir þá þurfum við að gera samninga við sveitarfélögin þannig að það verði ekki vandamál, að þetta sé einn ferill, skipulag yfir í byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi. Það er einn hluti af þessu.

Hvaða varnir erum við með í þessari fjármálaáætlun? Með því að sýna aukið aðhald, sýna auknar tekjur, erum við að styðja við peningastefnu Seðlabankans til að slá hagkerfið hratt niður og verðbólguna hratt niður til þess að markaðurinn jafni sig sem hraðast. Hvað eigum við að gera annað? Við erum að horfa sérstaklega á, við þessar aðstæður, lágtekjuhópana sem aldrei munu eignast húsnæði eða komast í leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði nema hið opinbera stígi þar inn og við erum að segja: Það er akkúrat núna rétti tíminn til þess. Þess vegna ætlum við að fara þangað með stuðninginn í meira mæli en við höfum áður gert og þess vegna er verið að leggja áherslu á allt að 30% stuðning eða sem sagt íbúðir sem eru byggðar með opinberum stuðningi, sem er miklu hærra en við höfum áður verið með vegna þess að við teljum að það sé þörf á því miðað við biðlista og annað og eins stöðuna sem er uppi á markaðnum í dag.

Hinn hópurinn sem er þar fyrir ofan ætti núna að nýta séreignarsparnaðinn til að safna peningum í eitt eða tvö eða þrjú ár til þess að hann sé betur í stakk búinn til að takast á við það að kaupa sér íbúð þegar aðstæður batna.