Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil koma inn á fjögur atriði í samhengi við málaflokk hæstv. innviðaráðherra í fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir fyrir árin 2024–2028. Það eru atriði er varðar lækkaða virðisaukaskattsendurgreiðslu til byggingar á íbúðarhúsnæði. Þótt það snerti auðvitað á málaflokki fjármálaráðherra hvað framkvæmd ákvörðunarinnar varðar þá hefur það auðvitað áhrif gagnvart áformum um stuðning við uppbyggingu húsnæðis landið um kring.

Það er skipulagsstopp orkusveitarfélaga sem auðvitað hefur umtalsverð áhrif ef það verður til þess að hægja á frekari orkuvinnslu hér heima í ljósi þess að loksins tókst að fá rammaáætlun samþykkta hér á síðasta þingi.

Það eru samvinnuverkefnin sem hæstv. ráðherra fer fyrir og hefur gengið treglega að fá einkaaðila að. Það kom fram í fréttum núna fyrir nokkrum dögum, mögulega fyrir einni viku síðan eða tveimur, að hæstv. ráðherra lýsti furðu sinni á því hversu treglega gengi að fá aðila til að fjármagna verkefnin og koma að þeim og þar kom fram að það væri eitt verkefni komið af stað en einkaaðili væri ekki kominn að því, sem er brú yfir Hornafjarðarfljót. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig staða þeirra mála er og hvort hann sjái fram á frekari drátt í þeim efnum.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um endurskoðun tekjustofna á ökutæki og umferð, hvort hann sjái fyrir sér að einhver núverandi gjalda verði lögð niður að öllu leyti, ekki að hluta heldur öllu leyti, á móti þessari breyttu eða nýju gjaldtöku. Ég geri ráð fyrir hæstv. ráðherra taki sér meira og minna báðar ræður sínar í þessu samhengi til að svara en hann hefur þá svigrúm til að stilla tímann af á milli umferða.