Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:14]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forseti nefndi þá stend ég hér í pontu sem staðgengill hæstv. mennta- og barnamálaráðherra og ætla að fara yfir helstu málefnasvið ráðuneytis mennta- og barnamála. Ráðuneytið er nýtt ráðuneyti sett saman í upphafi þessa kjörtímabils í þeim tilgangi að fara með málefni sem lúta að heildarhagsmunum barna og ungmenna og felur í sér rík tækifæri með auknum möguleikum og samhæfingu aðgerða og mismunandi málefnasviðum er varða þennan hóp. Innan ráðuneytisins eru menntamál upp að háskólanámi og íþrótta- og æskulýðsmál, barnaverndarmál og málefni barna og ungmenna í víðari skilningi. Undir ráðuneytið tilheyra málefnasvið 20 og hluti af málefnasviðum 18, 22 og 29. Heildarfjárheimild fyrir árið 2024 er áætluð 52 milljarðar kr. Starfsemi mennta- og barnamálaráðuneytis, eins og annarra ráðuneyta, mótast í fjármálaáætlun til næstu ára af þeim áhrifum sem verðbólga og alþjóðleg efnahagsmál hafa á annars sterkan efnahag landsins.

Í ljósi þessa er hlutverk ríkisins að draga sig að einhverju leyti í hlé, ná að bæta afkomu ríkissjóðs á sama tíma og draga úr vaxtabyrði heimila og halda kaupmætti sterkum. Bættri afkomu ríkissjóðs má annars vegar ná með aðhaldsaðgerðum en áhersla af hálfu ríkisstjórnarinnar er á hagræðingu í húsnæði, aðföngum og mannauði.

Mennta- og barnamálaráðuneytið fer ekki varhluta af aðhaldsaðgerðum, aðhaldskröfur eru á ráðuneytið sjálft og rekstur þess. Þá falla líka niður ýmsar tímabundnar fjárveitingar og framkvæmdum verður frestað að einhverju leyti eins og ríkisstjórnin hefur áður tilkynnt. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að þau verkefni sem teljast til grunnverkefna ráðuneytisins sé forgangsraðað, það sé gætt að því að verja grunnþjónustu og stuðning við viðkvæma hópa og það verði forgangsraðað og fjármunir nýttir vel í þá málaflokka og verkefni í þeirra þágu, þ.e. grunnþjónustunnar. Sum verkefni eru þegar hafin og mörg hver langt komin sem telja inn í grunnþjónustu en eru breytingar og umbætur innan málaflokka ráðuneytisins samt sem áður. Til að mynda má nefna að áfram verður unnið að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi árið 2022, auk menntastefnu til ársins 2030 sem Alþingi samþykkti árið 2021 en samkvæmt henni er verið að koma á fót nýjum lögum um heildstæða skólaþjónustu og að umbreyta Menntamálastofnun til að ná betur utan um nemendur og starfsfólk skóla með heildstæðum hætti. Þar undir má ekki síst nefna börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Eitt af markmiðum vinnunnar er að jafna aðstöðu allra, hvar á landinu sem er, og draga úr þeim skilum sem verða þegar nemendur fara á milli skólastiga. Vonir standa til þess að ný stofnun taki til starfa síðar á þessu ári í stað Menntamálastofnunar.

Þá má einnig nefna umtalsverða vinnu á sviði málefna framhaldsskólans en þar eru merki um aukningu á fjölda nemenda í starfsnámi á kostnað bóknáms, sem fækkar þá í, sem og að töluvert mikið samtal er hafið um stöðu leikskóla og það starf sem þar er unnið. Undir ráðuneytið heyra margar stofnanir en flestir framhaldsskólar landsins eru reknir af ráðuneytinu og fylgja þeim húsnæði sem sinna þarf og þarf að taka mið af þeim verkefnum sem framhaldsskólanemendur taka sér fyrir hendur. Í íþrótta- og æskulýðsmálum er mikið verk hafið í þeim tilgangi að auka gæði og styrkja faglega umgjörð sem að hluta til er nefnt í stjórnarsáttmála. Einnig hefur verið töluverð umræða um þjóðarhöll en þar ganga viðræður vel við Reykjavíkurborg þó að verkefni frestist eitthvað í ljósi þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur kynnt og fjallað var um hér á undan.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið eru mörg stór verkefni á teikniborði mennta- og barnamálaráðuneytis og mörg hver komin vel á veg. Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir verður grunnþjónustuverkefnum öllum haldið áfram og forgangsröðun beitt til að styrkja áfram grunnstoðir samfélagsins, unnið að gæðum menntunar og farsæld allra barna á Íslandi.