Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Já, þegar stórt er spurt verður maður að grufla svolítið í því hverju maður getur fundið ráð við og passa sig á því að líta ekki út fyrir að vera það sem maður er, miðaldra karlmaður sem er löngu búinn að útskrifa sín börn úr skóla. Ég var reyndar farinn að hafa áhyggjur af skólanum þegar mínir synir voru þar og hef haft áhyggjur af strákum í grunnskólanum lengi. Svo hefur verið að bætast við þessi andlega líðan ungra stúlkna sem hefur greinilega versnað á síðustu árum. Eitthvað erum við að gera rangt. Ég ætla ekki endilega að segja að það sé allt kerfinu og skólunum og því að kenna. Ég held við eigum að líta okkur nær einfaldlega, bara við fullorðna fólkið, foreldrarnir. Kannski er málið það sem allir eru að segja, að við gefum okkur bara of lítinn tíma til að setjast niður með börnunum okkar. Það var nú reynt að kenna mér að lesa áður en ég fór í skóla, það mistókst en yngri systir mín var miklu skarpari en ég og lærði að lesa á hvolfi. En ég var fljótur að læra að lesa þegar ég kom í skólann af því að það var búið að reyna að ströggla þetta með mér áður. Kannski eru menn að nota tímann of lítið til að lesa með börnunum og kenna þeim þegar þau eru minni og gefa þeim síðan meiri tíma bara til samfélagslegrar samveru. En ég held að sé rétt mat hjá hv. þingmanni að ríkið hafi svolítið sleppt höndunum af málaflokki grunnskólans og ég veit að ráðherrann sem ég er hér að tala fyrir, ætli sér að fara miklu meira inn í það, til að mynda með þessum skólaþjónustulögum og farsældarlögunum, þessari nýju stofnun, og ég held að það sé tæki til þess. Það er mikið og gott samráð í dag við sveitarfélögin og Kennarasambandið sem eru sammála þessari nálgun, að það þurfi aukið samtal og samráð á milli. Síðan er það hvernig við fjölgum kennurum, það tókst alveg ótrúlega vel á síðasta kjörtímabili. Í upphafi kjörtímabils stefndi í skort upp á 8.000 kennara (Forseti hringir.) en með samstilltu átaki ráðherrans, sem þá var Lilja Alfreðsdóttir, og annarra þá virðist það vandamál úr sögunni, sem er frábært.