Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:40]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Hvað erum við að gera? Samkvæmt OECD þá ráðstafar Ísland töluvert miklu fjármagni í grunnskólana og meira heldur en önnur lönd. Grunnskólinn okkar er dýr miðað við annað. Það er spurning hvort það þurfi eitthvað að skoða það betur. Sú vinna er í gangi í góðu samráði við alla að kannski þurfum við að beita þessu fjármagni öðruvísi en við höfum verið að gera. Farsældarlögin, sem ég held við bindum mjög mörg miklar vonir við, breyta ýmsu þar, t.d. færist meira fé yfir á fyrsta stig þjónustunnar sem er það sem við getum kallað snemmtæk íhlutun, þar sem er auðveldara að hjálpa börnunum að fara inn á rétta braut frekar en þegar þau fara yfir í annars stigs þjónustu eða þriðja stigs og eru komin í vandræði. Þar á meðal er t.d. lestrarkennsla og meiri forvarnir, kannski það sem hv. þingmaður var að vísa til, að þeim líði bara betur og séu öruggari með sjálfa sig. Það er ráðgjafarráð og lausnateymi á vegum ráðuneytisins og Menntamálastofnunar sem verður hægt að leita til síðan með erfiðari mál í þessu kerfi. Ég held að þetta sé eitt af því mikilvæga sem við erum að gera. Fagráðgjöf um t.d. lestrarkennslu og annað í þeim dúr verður hjá nýrri Menntamálastofnun og ég held að við höfum líka væntingar til þess að sjá hana starfa betur en hún hefur gert eða forveri hennar. Ég hef væntingar til þess að í því sem ráðherrann hefur verið að beita sér í, barnamálunum og þessari farsældarleið, með þessu gríðarlega samráði sem hefur verið tekið við allt og alla á Íslandi og sýnt mikinn áhuga, séum við á réttri leið.