Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En nei, ég get ekki tekið undir það að við séum á réttri leið. Mér finnst við vera gjörsamlega á kolrangri leið. Hér hefur fátækt barna vaxið um 44% á síðustu sex árum. Hér hefur farið stigvaxandi sá vandi sem lýtur að leskunnáttu ungmenna. Hins vegar get ég tekið undir með ráðherranum að það virðist vera að öllum þeim fjármunum sem eru settir í menntakerfið mætti hugsanlega hagræða öðruvísi þannig að þeir skiluðu sér betur í verkefnin. En mig langar til þess að benda ráðherra á tilraunaverkefnið Kveikjum neistann, svokallað, í Vestmannaeyjum, þar liggja fyrir tölulegar upplýsingar og gögn um raunverulegan árangur sem varð af því að koma með þetta tilraunaverkefni inn í grunnskólann til sex ára barna sem nú eru á öðrum vetri í þessu verkefni, Kveikjum neistann. Þau eru öll fyrir utan tvö, þetta eru 48 nemendur, farin að geta lesið. Hvert og eitt einasta, þau eru bara sjö ára. Þannig að ég velti fyrir mér, fyrst að við erum þarna með tölulegar upplýsingar og öll gögn, hvort það sé ekki þess virði sannarlega að taka utan um þetta og skoða með tilliti til þess að fylgja því eftir víðs vegar. Svo eru það nýbúarnir okkar. Það er algerlega með hreinum ólíkindum að við skulum ekki leggja meiri metnað í að taka utan um börn sem eru að koma hér frá öðrum löndum og virkilega láta þau finna sig velkomin í samfélaginu og hjálpa þeim. Hvernig líður þessum börnum t.d. í skóla þar sem þau skilja akkúrat ekki neitt af því sem þar fer fram? Við byrjum á því að brjóta börn niður. Það er ekki, frú forseti, okkur til framdráttar og sóma hér á hinu háa Alþingi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getum við ekki gert svo miklu betur en raun ber vitni?