Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Ég held að þetta sé rétt hjá hv. þingmanni og ég þekki þetta verkefni Kveikjum neistann, það er klárlega eitthvað sem gefur góðar vonir og er tilraunaverkefni sem ráðuneytið byrjaði að styrkja á síðasta kjörtímabili og heldur áfram og getur alveg gert það. Þetta gefur góðar vonir um að það virki þó svo að það megi aldrei gleyma því að það að læra að lesa getur þýtt mismunandi aðferðir fyrir mismunandi börn. En þetta er alla vega jákvætt. Ég man líka eftir að hafa séð í Reykjanesbæ, sem tók mjög fljótlega upp menntastefnuna 2030, fór að innleiða hana í sín kerfi, jákvæð teikn þar um að sú stefna væri til góðs. Þau gátu innleitt hana í sitt kerfi. Ég held að alls staðar þar sem eitthvað jákvætt er að gerast munu aðrir fara að horfa til þess og ráðuneytið að sjálfsögðu fylgist með, styður við slík verkefni og kemur þeim síðan til annarra ef þau gefa góða raun.

Það sem ég vildi ítreka varðandi það að við séum á réttri leið, og er þar af leiðandi að einhverju leyti ósammála þingmanninum, er að við erum auðvitað að skipta um kerfi. Það er verið að innleiða þessi farsældarlög. Við erum búin að tala um þau í svolítinn tíma því að fyrst þarf auðvitað að setja löggjöf og það þarf að undirbúa hana með samtali í raun og veru við allt samfélagið ef þetta á að virka og það hefur tekist mjög vel þannig að ég held að við munum fara að sjá breytingar. En auðvitað gerast þær ekki einn, tveir og þrír heldur smátt og smátt. Hluti af þessari fjárfestingu í börnum mun ekki skila sér fyrr en eftir 50–60 ár þegar fólk er búið að vera á vinnumarkaði og hefur farið í gegnum lífið. En vonandi sjáum við strax breytingu í því að það sé hægt að grípa inn í fyrr og leiðrétta minni háttar skekkju þannig að menn lendi ekki á verri stigum.