Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það á að efla starfsnám. Staðan 2020 var sú að 33,8% nemenda eða svo voru skráð í starfsnám, sem er sögulega séð í hæsta lagi og er það nokkuð jákvætt. Á næsta ári á staðan að vera sú að þetta verði komið upp í rúmlega 34% og markmiðið fyrir 2028, lok þessarar fjármálaáætlunar, er 35%. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé það sem eigi að kallast stórsókn í starfsnámi og eflingu þess. Vissulega er þetta eitt hæsta hlutfall sem við höfum séð, alla vega á þessari öld, hvað varðar hlutfallslegan fjölda þeirra sem eru skráðir í starfsnám, en er 35% markmiðið? Kannski er þessi hæga fjölgun holl en maður veltir fyrir sér hvort þetta sé eflingin sem átt er við eða ekki.

Kannski fer ég aðeins í næsta málefni hérna í fyrri umferðinni, en 80% nema í framhaldsskólum klára eða falla brott á fjórum árum; 20% falla brott og 60% klára. 75% karla klára eða falla brott á fjórum árum, meira að segja 50% á þremur árum, en það er 25% brottfall hjá körlum á fjórum árum meðan hlutfallið er 15% hjá konum. Það sem er áhugavert við tölurnar þarna er að það munar ekkert svo rosalega miklu á þeim útskriftarfjölda sem klárar á þremur og fjórum árum. (Forseti hringir.) Það eru ekkert rosalega mikið fleiri sem klára á fjórum árum heldur en þremur, sem er áhugavert að vissu leyti. Það segir manni að þriggja ára námið sé að vissu leyti að takast, en það eru samt alveg heil 20% eftir sem ná ekki að klára og klára varla á einu aukaári, (Forseti hringir.) heldur skrá sig þá líklega í starfsnám mun seinna og klára þá.