Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem jafnframt er formaður fjárlaganefndar og í því ljósi gæti ég sem ráðherra þessa málaflokks eða annarra sagt að auðvitað þyrftum við meiri fjármuni í alls konar hluti. En í þessari fjármálaáætlun erum við fyrst og fremst að leggja áherslu á aðhald. Ég treysti fjárlaganefnd til að fara yfir það í einstökum hlutum hvort þar séu einhverjir hlutir sem megi betur fara. En varðandi sérstaklega vinnustaðanámssjóð, af því að þingmaðurinn spurði um hann, þá er áformað að endurskoða úthlutunarreglur og fyrirkomulag styrkja úr þeim sjóði. Stjórn sjóðsins hefur nú það hlutverk, sjálf stjórn vinnustaðanámssjóðs, að fara yfir þau atriði og skila tillögu til ráðherra og þegar tillagan verður komin til ráðuneytisins er hægt að svara kannski efnislega spurningu þingmannsins en það er eiginlega ekki hægt að gera það núna þar sem sú tillaga liggur ekki fyrir og vinnan er í gangi.

Varðandi sameiningu VMA og MA eða samstarf og allt þetta þá getur maður sagt, eins og ég fór yfir í ræðunni, að það að starfsnámsnemum sé að fjölga og bóknámsnemum að fækka á móti er auðvitað áskorun, það hvernig hægt er að efla framhaldsskólakerfið. Ráðherra mennta- og barnamála, ég tala hér fyrir hönd hans, vill efla enn frekar framhaldsskólastigið. Það er ljóst að það þarf að nýta fjármagnið innan þessa málaflokks með skynsamlegum hætti þegar þessar breytingar eiga sér stað og þess vegna hefur ráðuneytið hafið skoðun á möguleikum innan kerfisins til endurskipulagningar fjármagns og hagræðingar með ýmsum hætti. Það liggja hins vegar engar ákvarðanir fyrir og allar þær ákvarðanir verða teknar að sjálfsögðu í nánu samráði við alla þá hagaðila sem hlut eiga í hverju máli og þær kynntar í kjölfarið. Ég vil bara leggja áherslu á að það er svo mikilvægt — og það er að takast — að ná þessu samtali við alla skólameistara, (Forseti hringir.) við skólakerfið hringinn í kringum landið áður en við förum að tala um einhverjar hugmyndir (Forseti hringir.) um alls konar hluti. Ég vil leggja áherslu á það og afsaka við forseta að ég steli þessari hálfu mínútu út af því.