Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:13]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég held að þegar við erum að ræða um þessar breytingar sem farsældarlögin eru að kalla eftir — og hv. þingmaður var að segja: Ef okkur mistekst er þetta í húfi og þetta í húfi — þá megum við ekki gleyma því við hvað við erum að miða. Við erum miða við ástandið eins og við þekkjum það núna, eins og það hefur verið síðastliðin ár. Það hefur augljóslega ekki verið nægilega gott, hvort sem það er árangur í PISA eða vellíðan eða eitthvað slíkt. Þannig að ég held, eftir alla þessa vinnu í kringum farsældarlögin og það gríðarlega mikla samráð og samtal sem hefur átt sér stað við skólasamfélagið og við foreldra, við alla hagaðila, mikill áhugi. Ég held að það segi okkur að við séum á réttri leið og ég held að það tryggi að við náum að innleiða þetta.

Það má segja að eftir að við náum að innleiða farsældarlögin þá munum við sjá hvort það þurfi meira fjármagn í einstaka liði og þá hversu mikið. Ráðuneytið er að kalla á þessa innleiðingu tímabundið frá sveitarfélögunum eftir því hvernig þau nýta fjármagn í dag. Við þekkjum það bara af mismunandi sveitarfélögum að það er mjög mismunandi gangur á því. Þannig að hugmyndafræðin í ráðuneytinu er að safna góðum gögnum, góðum sögum til þess að geta nýtt síðan inn í innleiðinguna og byggja á þeim í framhaldinu.

Varðandi síðan leikskólana þá er það bara lengri umræða. Ég myndi bara að gleyma mér í því að vera staðgengill mennta- og barnamálaráðherra og færi að tala út frá eigin brjósti um áhyggjur af því. Jú, ég er sammála því, annars vegar held ég að það sé gott fyrir börn að geta verið sem lengst með foreldrum sínum. Ég hef líka áhyggjur af því að við værum bara með einhverja kvikklausn og lengdum fæðingarorlofið og það kæmi niður á jafnrétti. Þannig að það eru svo margir vinklar á þessu. (Forseti hringir.) Ég held að sú umræða sem á sér víða stað (Forseti hringir.) í mörgum sveitarfélögum um mismunandi lausnir muni hjálpa okkur í því að finna réttu leiðirnar, ekki endilega einhverja eina en réttu leiðirnar.