Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:16]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þau málefnasvið sem falla undir verksvið matvælaráðherra eru nr. 12 og 13 og að hluta 7, 17 og 21. Ég mun hér fara yfir nokkur lykilatriði úr nýrri fjármálaáætlun fyrir árið 2024–2028, af málefnasviðum 12 og 13. Grundvallaratriðin sem horft var til í mínu ráðuneyti við vinnslu fjármálaáætlunar voru styrking innviða grunnatvinnugreina okkar; sjávarútvegs, landbúnaðar og lagareldis. Með þeirri styrkingu sköpum við skilyrði fyrir aukinni velsæld almennings og verðmætasköpun innan greinanna.

En fyrst nokkur orð um áætlunina almennt. Hún byggir á því markmiði ríkisstjórnarinnar að tryggja langtímastöðugleika í fjármálum hins opinbera með því að vaxa út úr skuldunum. Og eins og alþjóð veit þá tók ríkissjóður á sig verulegar byrðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á meðan stór hluti atvinnulífsins og verðmætasköpun lá í dvala svo mánuðum skipti. Með ábyrgri stjórn ríkisfjármála tryggjum við sjálfbæra þjónustu hins opinbera til lengri tíma á sama tíma og við beitum ríkisfjármálunum til að vernda viðkvæma hópa.

Verkefnin fram undan í matvælaráðuneytinu byggja á markvissri stefnumótun um langtímasýn í kjarnagreinum matvælaframleiðslu. Fyrir páska mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um matvælastefnu til ársins 2040 en stefnan er mikilvægur vegvísir sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðuöryggi og auka velferð í sátt við umhverfi og náttúru. Landbúnaðarstefna til ársins 2040 er einnig í meðförum þingsins, hjá hv. atvinnuveganefnd, en markmið hennar er efling og styrking íslensks landbúnaðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og nú um stundir er unnið að stefnumótun í sjávarútvegi undir formerkjum Auðlindarinnar okkar í þeim tilgangi m.a. að tryggja ábyrga nýtingu auðlinda og stuðla að aukinni sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. Miklu skiptir að við sköpum skilyrði fyrir sjálfbæran vöxt fiskeldis, að við rennum styrkari stoðum undir rannsóknir á hafinu og styrkjum grundvallarþætti í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ef við víkjum fyrst að málefnasviði 13, um sjávarútveg og fiskeldi, þá fellur þar undir stjórnsýslu Fiskistofu, þ.e. stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis, og Verðlagsstofa skiptaverðs. Verkefnin sem um ræðir eru m.a. stjórnun á nýtingu auðlinda hafsins, vöktun Hafrannsóknastofnunar og annað eftirlit. Einnig falla undir þetta málefnasvið styrktarsjóðir vegna fiskeldis; Fiskeldissjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis og Fiskræktarsjóður. Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins aukist um 1.224 milljónir frá árinu 2023–2028 og þar af nema aðhaldsráðstafanir á tímabilinu um 414 millj. kr. Breytingar á málefnasviðinu felast fyrst og fremst í auknum framlögum, annars vegar til að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi og hins vegar til að efla hafrannsóknir og eftirlit með sjávarútvegi.

Á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að framlög til þessara verkefna aukist um samtals 5,2 milljarða kr. og tæpum helmingi þeirrar fjárhæðar, eða 2,2 milljörðum kr., verði varið í styrkingu stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi. Þá renna 3 milljarðar kr. á tímabilinu til eflingar hafrannsókna og eftirlits með sjávarútvegi. Þessi auknu framlög miða að því að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Eftir því hefur verið kallað um langt árabil að efla beri hafrannsóknir á Íslandi og hefur komið fram í nýlegri greinargerð um stöðu hafrannsókna frá Jóhanni Sigurjónssyni að það sé orðið svo að íslenskar sjávarafurðir séu því aðeins samkeppnishæfar á alþjóðamörkuðum, og tryggt sé að nýting auðlinda sjávar sé sjálfbær, að við stóreflum hafrannsóknir. Það er sem sé bæði skýrt og tímabært og hefur verið á það bent, bæði hér á Alþingi og ekki síður í ýmsum skýrslum og úttektum. Í greinargerð Jóhanns segir m.a. að starfsemi Hafrannsóknastofnunar sér kjarnastarfsemi í íslenskum sjávarútvegi sem hafi ekki einungis áhrif á stöðu þekkingar um stofna heldur líka varðandi orðspor sjávarafurða.

Virðulegi forseti. Ég bara áttaði mig ekki á því að ég hefði svo stuttan tíma. Þannig að ég mun þá væntanlega hér í andsvörum fá tækifæri til þess að ræða bæði lagareldi og kornrækt en hvort tveggja er hér að njóta líka viðbótarframlaga í áætluninni.