Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:28]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn fyrir hennar fyrirspurnir og vangaveltur. Ég held að það sé ekki ofmælt hversu mikilvægt það er í allri auðlindanýtingu, og raunar matvælaframleiðslu yfir höfuð og frumframleiðslugreinum, að gæta betur að umhverfissjónarmiðum heldur en gert hefur verið. Sem betur fer er það orðið þannig almennt í umfjöllun um þessa málaflokka, ég nefni umfjöllun um landbúnað til að mynda á Evrópuvísu, umræðuna um annars vegar loftslagsáhrifin og hins vegar áhrifin á líffræðilega fjölbreytni. Þetta er alls staðar orðið leiðarstef en ekki, eins og kannski var fyrir ekkert löngu, annar málaflokkur. Það sama gildir sem betur fer um sjávarútveginn. Þar er aukin almenn vitund um það hversu mikilvægt það er að þekking sé fyrir hendi á vistkerfi sjávar en ekki fyrst og fremst eða jafnvel eingöngu á tilteknum nytjastofnum. Þarna þurfum við að gæta enn betur að þegar við erum að horfa til áhrifa af loftslagsbreytingum og súrnun sjávar, breyttu hitastigi o.s.frv. Varðandi sjókvíaeldið þá er það algjört leiðarstef í mínum huga að þar verðum við að bæta verulega í rannsóknir til þess að við vitum og getum byggt vöxt greinarinnar, hvort sem hann er fyrirséður eða væntur af einhverjum tilteknum framkvæmdaaðilum, á vísindalegri þekkingu þar sem náttúran nýtur vafans.