Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Helstu áherslur í þessari fjármálaáætlun sem lúta að landbúnaðinum eru að sjálfsögðu áhugaverðar og það kemur m.a. fram að efla skuli fæðuöryggi og standa vörð um heilbrigði plantna og dýra, velferð dýra og öryggi matvæla, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu, skapa skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbærni, landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi. Þetta eru göfug og góð markmið. Þá eru einmitt, í þessum landbúnaðarkafla fjármálaáætlunarinnar, talin upp nokkur atriði sem stjórnvöld líta á sem helstu áskoranir innlends landbúnaðar á komandi árum. Meðal þessara áskorana eru loftslags- og umhverfismál sem eru talin ein helsta áskorunin. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að tryggja að það sem bændur leggja af mörkum til kolefnisjöfnunar njóti alþjóðlegrar viðurkenningar og viðurkenndrar vottunar. Það er hlutverk stjórnvalda og bændur geta látið verulega að sér kveða á þessu sviði. Við þekkjum það, enda er kolefnisbúskapur vaxandi grein, m.a. erlendis eins og í mörgum löndum Evrópu og Norður-Ameríku, svo dæmi sé tekið. Þess vegna er mjög mikilvægt að velta því fyrir sér hvar við stöndum þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki, kolefnisbúskap og hlutverki bænda í kolefnisjöfnun. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar sjáum við hvatana í fjármálaáætlun hvað þetta varðar, sem snúa beint að bændum og þessari mikilvægu kolefnisjöfnun?